Framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs kynnti drög að fyrirkomulagi og reglum um sérstakan viðspyrnusjóð fyrir fyrirtæki vegna Covid-19 á fundi bæjarráðs í morgun. Samkvæmt drögunum er gert ráð fyrir að settur verði á laggirnar viðspyrnusjóður fyrir fyrirtæki, með áherslu á fyrirtæki í ferðaþjónustu, með heilsársstarfsemi, sem nýtur framlaga frá Vestmannaeyjabæ um allt að 5 m.kr. á árinu 2020. Sjóðurinn er stofnaður til að bregðast við þeim óvæntu og sérstöku aðstæðum sem skapast hafa vegna heimsfaraldurs Covid-19 veirunnar. Gríðarlegt tekjufall hefur orðið hjá mörgum fyrirtækjum, sérstaklega í ferðaþjónustu og við þeim aðstæðum er verið að bregðast með afgerandi hætti.

Gert er ráð fyrir að sjóðurinn verði fjármagnaður með þegar ákveðnum fjárheimildum á fjárhagsáætlun 2020 og því þarf ekki að koma til nýtt fjármagn. Bæjarráð samþykkti að settur verði á laggirnar viðspyrnusjóður á þeim grunni sem kynntur hefur verið og samþykkir drög að fyrirkomulagi og reglum sjóðsins. Bæjarráð felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að fylgja málinu eftir og auglýsa sjóðinn á vef Vestmannaeyjabæjar. Úthlutað verður úr sjóðnum fyrir áramót.