Bæjarráð tók á fundi sínum í morgunn fyrir erindi formanns og framkvæmdastjóra ÍBV-íþróttafélags um viðbótarfjárveitingu frá Vestmannaeyjabæ vegna tekjufalls félagsins af völdum Covid-19 sem nemur tugum milljóna króna. Um er að ræða beiðni um 20 m.kr. fjárstyrk fyrir árið 2020. Vegna samkomutakmarkana stjórnvalda hefur ÍBV orðið af bróðurparti tekna sinna á þessu ári. Félagið reiðir sig m.a. á tekjur af Þjóðhátíð og öðrum viðburðum, en flestir þessara viðburða hafa fallið niður. Ráðist hefur verið í hagræðingaraðgerðir, en ljóst er að ef halda úti óbreyttu íþróttastarfi barna og ungmenna þarf að koma til viðbótarfjármagn. Öðrum kosti gæti komið til þess að félagið neyðist til að hækka æfingagjöld umtalsvert.

Bæjarráð samþykkir að veita ÍBV-íþróttafélagi 20 m.kr. fjárstyrk á árinu 2020 vegna tekjufalls félagsins af áhrifum hertra samkomutakmarkana. Styrkurinn er ætlaður til barna og unglingastarfs og er skilyrtur við að æfingagjöld hækki ekki á árinu 2021. Bæjarráð felur framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs að gera samning við ÍBV um fjárstyrkinn og skilyrði fyrir honum. Bæjarráð felur jafnframt fjármálastjóra að útbúa viðauka við fjárhagsáætlun 2020 þar sem gert er ráð fyrir þessari fjárveitingu.
ÍBV – beiðni um viðbótarfjárveitingu vegna tekjufalls af völdum Covid19.pdf

Golfklúbburinn óskaði eftir viðbótarfjárveitingu
Fyrir bæjarráði lá einnig erindi Golfklúbbs Vestmannaeyja dags. 15. nóvember sl., þar sem óskað er eftir viðbótarfjárveitingu frá Vestmannaeyjabæ að upphæð 10 m.kr. fyrir árið 2021, til þess að ráðast í lagfæringar á aðstöðu kylfinga, svo sem búningsklefa, salerni og bætta aðstöðu fyrir tæki og í ljósi þess að klúbburinn heldur Íslandsmótið í höggleik 2022. Beiðni þessi um aukafjárveitingu til golfklúbbsins er til viðbótar þeim rúmum 27 m.kr. sem óskað hefur verið eftir í fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar til GV á næsta ári.

Í niðurstöðu málsins kemur fram að bæjarráð hefur fjallað um erindi GV með hliðsjón af undirbúningi fjárhagsáætlunar Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2021. Bæjarráð telur ekki hægt að koma að fullu til móts við umrædda beiðni golfklúbbsins, en leggur til að bæjarstjórn veiti aukafjárstyrk í fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 að upphæð 5 m.kr. til þessara framkvæmda að því gefnu að ráðist verði í þær.
aukafjarveiting_gv-vmnóv2020b.pdf