Bæjarráð skorar á Reykjavíkurborg

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga var til umræðu á fundi bæjarráðs í gær. Fram hefur komið að Reykjavíkurborg hafi krafið Jöfnunarsjóð sveitarfélaga um 8,7 milljarða króna fyrir meint vangoldin framlög úr sjóðnum og ætli að halda þeirri kröfu til streitu, þrátt fyrir að ríkið hafi hafnað henni. Ljóst er að muni krafan ná fram að ganga munu sveitarfélögin í landinu þurfa að greiða fyrir kröfuna í formi skertra framlaga úr Jöfnunarsjóði til þeirra. Það hefur átt sér stað um aðrar kröfur sem lent hafa á sjóðnum. Mörg sveitarfélög treysta að miklu leyti á framlög Jöfnunarsjóðs til að sinna þeim fjölmörgu verkefnum sem þeim eru falin og því ljóst að skerðing á framlögum mun gera mörgum sveitarfélögum ómögulegt að sinna þessum verkefnum. Það getur haft þær afleiðingar að þjónusta við íbúana skerðist verulega frá því sem nú er.

Flest sveitarfélög landsins takast nú á við mjög erfiða fjárhagsstöðu á árinu 2020 og vandasamt er að áætla fyrir um tekjur og gjöld á næsta ári. Skert framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga mundi hafa veruleg áhrif á fjárhagsstöðu sveitarfélaga.

Bæjarráð tekur undir með byggðarráði sveitarfélagsins Skagafjarðar og deilir áhyggjum sveitarfélagsins af kröfu Reykjavíkurborgar um 8,7 milljarða króna á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og skorar á Reykjavíkurborg að draga kröfuna til baka. Nær er að leita annarra leiða gagnvart ríkisvaldinu til að ná fram þeirri leiðréttingu sem borgin telur sig eiga rétt á. Reykjavíkurborg má vera það ljóst að með því að sækja kröfuna í gegnum Jöfnunarsjóð munu framlög til annarra sveitarfélaga skerðast sem því nemur, með ófyrirséðum afleiðingum fyrir sveitarfélögin og íbúa þeirra.

Aðalfundur

Mest lesið