Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa gert það að formlegri tillögu sinni að Vestmannaeyjabær hrindi af stað átaksverkefninu ,,Veldu Vestmannaeyjar”  sem miðar að því að kynna Vestmannaeyjar sem eftirsóknarverðan búsetukost fyrir einstaklinga og fjölskyldur með áherslu á þá sem geta sinnt störfum sínum í fjarvinnu frá Vestmannaeyjum.

Breytt íbúaþróun undanfarin 15 ár hefur leitt af sér töluverða fækkun barna á aldrinum 0 til 15 ára í Vestmannaeyjum eða um 22% á meðan að á landinu öllu hefur orðið aukning í sama aldurshópi. Mikilvægt er fyrir samfélagið að fjölga eggjunum í körfunni, bregðast við þeirri íbúaþróun sem samfélagið stendur frammi fyrir, auka fjölbreytileika atvinnulífsins, efla nýsköpun og grípa tækifærið sem auknir möguleikar á fjarvinnu vegna áhrifa heimsfaraldurs hafa veitt.

Lykilþættir verkefnisins

1) Auglýsingaherferð

 • Vel heppnuð auglýsingaherferð ferðamálasamtakanna, Vestmannaeyjar – alltaf góð hugmynd, útvíkkuð.
 • Vestmannaeyjar kynntar sem ákjósanlegur staður fyrir framtíðar búsetu.
 • Stuttar vegalengdir, engin umferðarteppa, tíminn er okkar dýrmætasti gjaldmiðill og þú færð meira af honum í Vestmannaeyjum.
 • Engir biðlistar í leikskóla, börn komast inn við 12 mánaða aldur, öflugur grunnskóli með metnaðarfullu starfsliði, framúrskarandi framhaldsskóli með fjölbreytta námsmöguleika ásamt ýmsum kostum á háskólanámi í stað- og fjarnámi.
 • Stutt í fjölbreytta náttúrufegurð og útivist.
 • Viðráðanlegt húsnæðisverð.
 • Öflugt og fjölbreytt íþrótta-, tómstunda- og menningarstarf í fremstu röð:
 • Fjölbreytt verslun og þjónusta
 • Náið samfélag, samhugur og samkennd einkenna samfélagið.

2) Tryggja tilvist fjarvinnustarfsstöðva
Vestmannaeyjabær hafi frumkvæði að því að til staðar sé hentugt húsnæði fyrir fjarstarfsemi. Ríkið býr yfir rúmgóðu húsnæði í sveitarfélaginu með góðri nettengingu sem e.t.v. væri hægt að fara í samstarf um að nýta í þessum tilgangi. Einnig væri hægt að tengja fjarvinnustöðvar við verkefni 3. hæðar Fiskiðjunnar og boðið slíkar stöðvar til útleigu sem gæti skapað tekjur fyrir Vestmannaeyjabæ.

3) Samráðsvettvangur háskólanema og atvinnulífs í Vestmannaeyjum
Í samstarfi við Þekkingarsetur Vestmannaeyja verði komið á samráðsvettvangi fyrir háskólanema og atvinnulíf í Vestmannaeyjum. Fyrirtæki geta sett fram verkefni sem þau hafa áhuga á að láta háskólanemendur vinna fyrir sig sem lokaverkefni og háskólanemar geta að sama skapi komið á framfæri áhuga um að vinna lokaverkefni á sínu sviði. Slíkt gæti komið á tengingum milli atvinnurekenda og háskólanema, aukið líkur á að háskólanemar sinni verkefnum sínum í tengslum við atvinnulífið í Eyjum og eykur líkur á að háskólanemarnir setjist þar að.

4) Vefsíða Vestmannaeyjabæjar
Hnapp verði komið fyrir á vefsíðu sveitarfélagsins: Viltu flytja til Vestmannaeyja? Hnappurinn vísar á vefsvæðið www.velduvestmannaeyjar.is þar sem fram koma upplýsingar á borð við:

 • Atvinnuauglýsingar í Vestmannaeyjum
 • Störf hjá hinu opinbera sem eru auglýst án staðsetningar
 • Hlekkir á fasteigna- og leigumiðlara
 • Hlekkur á lausar lóðir hjá sveitarfélaginu
 • Upplýsingar um leik-, grunn-, framhalds- og háskólanám sem hægt er að stunda í sveitarfélaginu, biðtíma og verð
 • Samráðsvettvangur atvinnulífs og háskólanema
 • Hlekkur á þjóðskrá um tilkynningu á flutning lögheimilis

5) www.velduvestmannaeyjar.is
Stofna og hanna vefsíðuna www.velduvestmannaeyjar.is sem hlekkur á vefsíðu Vestmannaeyjabæjar myndi opnast á og þar væru áður umræddar upplýsingar og hlekkir. Búið er að tryggja að vefsvæðið er laust til notkunar.

6) Myllumerkið  #velduvestmannaeyjar
Nýtt á svipaðan hátt og ferðaþjónustan nýtir myllumerkið  #visitvestmannaeyjar. Bæjarbúar veita liðsinni í að auglýsa Vestmannaeyjar í gegnum myndmiðla, fallegar náttúrumyndir, afþreyingu ofl. sem gefa til kynna kosti samfélagsins.

7) Markviss umfjöllun um Vestmannaeyjar
Fjölmiðlaumfjöllun, greinaskrif og önnur umfjöllun sem styður við og fjallar um kosti sveitarfélagsins og vekur athygli á möguleikum þess.

Sköpum stöðugleika
Þær aðstæður sem eru uppi í samfélaginu sýna fram á mikilvægi fjölbreytts atvinnulífs en það skapar sveitarfélögum aukinn stöðugleika. Áhrif Covid19 hafa gefið fjarvinnu og fjarnámi aukið vægi og aukna möguleika og er mikilvægt að Vestmannaeyjabær láti sitt ekki eftir liggja í að vekja athygli á þeim ótvíræðu kostum sem búsetu í Vestmannaeyjum fylgir. Í samfélaginu er í boði úrvalsþjónusta sem er veitt af hálfu sveitarfélagsins, ríkisins, íþróttafélaga, þjónustufyrirtækja, félagasamtaka og íbúa sem saman hafa skapað það öfluga samfélag sem einkennir Vestmannaeyjar.

Tillaga um átaksverkefnið ,,Veldu Vestmannaeyjar” verður flutt á bæjarstjórnarfundi þann 3. desember n.k.

Hildur Sólveig Sigurðardóttir
Helga Kristín Kolbeins
Trausti Hjaltason

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum