Bæjarráð tók á fundi sínum í vikunni fyrir tilboð um kaup á hluta Vestmannaeyjabæjar á 2. og 3. hæðum eignarinnar að Strandvegi 50 (Hvíta húsinu). Húsið hefur lengi verið til sölu og fáir sýnt því áhuga. Vestmannaeyjabær á að fullu 1. hæð hússins þar sem nú er rekin félagsmiðstöð fyrir unglinga. Að auki á Vestmannaeyjabær 32% af 2. og 3. hæðum hússins á móti Visku sem á hin 68%. Viska hefur áhuga á að eignast 2. og 3. hæðina að fullu og hafa gert Vestmannaeyjabæ tilboð um kaupverð á eignarhluta bæjarins. Tveir fasteignasalar hafa verðmetið eignina og er tilboð Visku í samræmi við verðmatið.

Verði af viðskiptunum munu þau engin áhrif hafa á húsleigusamning við Lista- og menningarfélag Vestmannaeyja um efri hæðir Strandvegs 50. Leigusamningurinn mun áfram gilda til 30. september 2022. Bæjarráð fól bæjarstjóra og framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að ganga frá viðskiptum á grundvelli þess sem kynnt var bæjarráði.