Kjördæmisráð Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Suðurkjördæmi ákvað á fundi sínum í gærkvöld að efna til forvals fyrir Alþingiskosningarnar í september á næsta ári.

Efnt var til atkvæðagreiðslu um málið og var mikill meirihluti fundarmanna fylgjandi þeirri leið að hafa forval en ekki uppstillingu á framboðslistann. Nú þegar hafa nokkrir lýst vilja sínum til að skipa efstu sæti listans.

Núverandi þingmaður VG í Suðurkjördæmi Ari Trausti Guðmundsson gefur ekki kost á sér til endurkjörs. Hólmfríður Árnadóttir, skólastjóri Sandgerðisskóla, hefur ákveðið að bjóða sig fram til að leiða lista VG í Suðurkjördæmi í næstu Alþingiskosningum. Hólmfríður er formaður svæðisfélags Vinstri grænna á Suðurnesjum.