Dóra Björk Gunnarsdóttir

Undanfarnar vikur hef ég verið ósátt við aðgerðaleysi menntamálayfirvalda gagnvart börnum okkar, sem eru 16 ára og eldri. Þessi börn hafa lítið sem ekkert fengið að sækja námið sökum sóttvarnaaðgerða, hefur verið boðið upp á neyðarkennslu næstum alla þessa önn sem og stóran hluta síðustu annar. Það er varla hægt að segja að kennslan sem þeim er boðið upp á sé fjarnám, því skólarnir voru ekki í stakk búnir til að fara í breyttar kennsluaðferðir. Erfitt er að henda kennara sem er vanur að hafa töflu, skjávarpa og nemendur fyrir framan sig í að kenna í gegnum fjarfundarbúnað. Ég hef t.d. orðið vitni af því að ungmennið mitt segi tvö orð í klukkustundar kennslustund, og annað þeirra þegar hann svarar nafnakalli í upphafi tímans. Það sjá allir sem vilja sjá að þetta er ekki kennsla sem er vænleg til árangurs.

Fjórða október voru settar á hertar sóttvarnarreglur í framhalds- og háskólum sem áttu að vera tímabundnar. Þó létt hafi verið að einhverju leiti á þessum aðgerðum þá hafa þær ekki opnað fyrir bóknámi í fjölbrautarskólunum landsins. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef þá var einöngu hægt að opna fyrir kennslu í Verzlunarskólanum, sem er bekkjarskóli, að hluta til einkarekinn.

Á fundi almannavarna í nóvember lýstu menn yfir áhyggjum sínum af nemendum á framhaldsskólaaldri.  Rætt var að opna fyrir meira skólahald og að einhverju leyti fyrir skipulagðar íþróttir.  Umræðan var mikil, bæði í fjölmiðlum og í samfélaginu öllu, en ekkert breyttist, þrátt fyrir að fjöldi smita héldust nokkuð stöðug. Það er eins og að ungmennin hafi algjörlega gleymst.

Þegar yfirvöld tala þá þarf að tala skýrt, maður réttir ekki barni ís og tekur hann svo aftur.

Í mínu samfélagi hefur ekki einn framhaldsskólanemandi veikst af veirunni í vetur. Eflaust er hægt að þakka það því að það er enginn skóli en kannski er því að þakka að þau eru dugleg að beita persónulegum sóttvörnum. Hefði mér því fundist eðlilegt að halda úti venjulegri kennslu á meðan engin eru smitin.

Samkvæmt mennta- og menningarmálaráðuneytinu þá er hlutverk framhaldsskóla að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi.

Ég er á því að framhaldsskólum landsins sé ekki gert kleift að sinna þessu hlutverki sínu. Ég er þeirrar skoðunar að félagslegur þroski ungmennanna okkar sé i hættu. Ef við sem þjóð grípum ekki inni í þá erum við að bregðast þessum ungmennum okkar. Höfum við efni á því að þessi ungmenni flosni upp úr námi og endi á atvinnuleysisbótum?

Ég tel að það þurfi að bregðast hratt við og huga að félagslegum tengslum ungmenna og andlegri líðan. Ég skil vel að í fjölbrautarskólum þar sem mikil blöndun er, að þar sé þetta erfitt.  En ég skil engan vegin af hverju sumarið var ekki notað til að búa til kerfi sem myndi nýtast ef upp kæmi önnur bylgja.

Nýjustu reglurnar segja t.d. að í mínu samfélagi megi meistaraflokkur karla og kvenna æfa í handbolta, meistaraflokkur kvenna í fótbolta  sem og öll börn sem eru 15 ára og yngri. En enn á ný erum við að gleyma ungmennunum!

Þessir krakkar hafa ekki mátt stunda sitt nám frá því í febrúar 2020. Þau hafa ekki mátt stunda sínar íþróttir síðan 4. október. Það er skiljanlegt að þau megi ekki halda upp á afmælið sitt, halda útskriftarveislur eða fara á ball.

Er ekki nóg á unglingana lagt?

Er ekki tími til kominn að opna fyrir framhaldsskólana og skipulagðar tómstundir þannig að þau geti fengið að vera í lífsnauðsynlegum samskiptum við jafnaldrana og skólarnir sinnt hlutverki sínu við að stuðlað að alhliða þroska nemenda sinna?

Kæra samferðafólk, vinnum að því saman að koma börnunum okkar úr rúminu, í rútínu og í félagsleg samskipti.

Dóra Björk