Sundlaug Vestmannaeyja opnaði klukkan sex í morgunn. Sundlaugunum landsins var lokað í annað sinn í heimsfaraldrinum þann 7. október, en samkvæmt nýjustu reglugerð heilbrigðisráðherra var þeim heimilt að hafa opið fyrir almenningi aftur frá og með deginum í dag.

“Það var mikil gleði hér í morgunn þegar okkar fastagestir mættu með bros á vör eftir rúmlega tveggja mánaða pásu,” sagði Grétar Þór Eyþórsson forstöðumaður Íþróttamiðstöðvarinnar í samtali við Eyjafréttir. “Það er geggjað að getað opnað aftur, það eru margir ánægðir með þetta. Ég finn það líka á starfsfólkinu að það er léttara yfir öllu og lífið hér að færast í eðlilegra horf. Svo verður líka gaman að fá meistaraflokkana aftur í húsið.”

Grétar segist ekki eiga vona á neinni sprengju í aðsókn en heimilt er að taka á móti 82 baðgestum í lauginni. “Þetta verða væntanlega okkar fastagestir sem mæta á sínum tímum ég hef ekki áhyggjur af þessum fjöldatakmörkum á þessum árstíma.” Grétar sagði að endingu þær fréttir helstar að leiklaugin væri komin í gagnið og reiknaði með að hún næði réttu hitastigi á morgun.