Allt að fimm fyrirtæki verða valin til þátttöku í tíu vikna viðskiptahraðal Orkídeu, sem hefur göngu sína snemma á næsta ári. Opnað hefur verið fyrir umsóknir í viðskiptahraðalinn, Startup Orkídea, en hægt er að sækja um þátttöku á vefsíðunni startuporkidea.is fram til 17. janúar nk.

Orkídea er samstarfsverkefni sem Landsvirkjun, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, Landbúnaðarháskóli Íslands og Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ýttu úr vör í júlí sl. Það snýst um uppbyggingu orkutengdra tækifæra framtíðarinnar á Suðurlandi, til dæmis við matvælaframleiðslu og líftækni, sjálfbæra nýtingu auðlinda, sprotastarfsemi og að undirbúa svæði til að taka á móti orkutengdri nýsköpun. Eitt meginmarkmiða samstarfsins er að auka verðmætasköpun í matvælaframleiðslu í landinu og gera framleiðsluna umhverfisvænni með nýtingu á grænni orku sem býr þannig til tækifæri fyrir íslenska matvælaframleiðendur til að vera samkeppnishæfir á alþjóðamarkaði.

Viðskiptahraðallinn Startup Orkídea er einstakur vettvangur fyrir þróun nýrra viðskiptahugmynda og nýsköpunarverkefna rótgrónari fyrirtækja sem vinna að sjálfbærum lausnum á sviði hátæknimatvælaframleiðslu og líftækni.

Umsjón með verkefninu er í höndum Icelandic Startups sem hefur til fjölda ára veitt aðstoð við uppbyggingu sprotafyrirtækja og leitt saman frumkvöðla, fjárfesta og aðra sérfræðinga með verðmætasköpun og samfélagslegan ávinning að leiðarljósi.

Farið verður yfir mótun viðskiptahugmynda, virðiskjarninn rýndur og viðskiptavinir og dreifileiðir greindar vel. Einnig verður farið yfir gerð rekstraráætlana, markaðs- og sölumál og undirbúning fyrir fundi með fjárfestum. Viðskiptahraðlinum lýkur með kynningu þátttakenda á viðskiptahugmyndum sínum fyrir hópi fjárfesta. Fyrstu tvær vinnuloturnar fara fram á Suðurlandi og sú þriðja í Reykjavík. Þátttakendur fá einnig aðgang að fullbúinni vinnuaðstöðu í hugmyndahúsi Grósku meðan á verkefninu stendur, auk fjölda tækifæra til að efla tengslanetið og koma hugmyndum sínum á framfæri.

Sprotafyrirtækjum sem valin verða til þátttöku býðst 1 milljón króna fjárstyrkur gegn valfrjálsum kauprétti Landsvirkjunar á 10% eignarhlut gegn 5 milljón kr. hlutafé. Kauprétturinn fellur niður sex mánuðum eftir fjárfestadag verkefnisins. Styrknum er ætlað að veita þátttakendum svigrúm til að einbeita sér að nýsköpunarverkefnum sínum meðan á hraðlinum stendur. Þátttakendur geta valið að þiggja ekki styrkinn og fellur þá kauprétturinn niður.

Ríkarður Ríkarðsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá Landsvirkjun:

„Landsvirkjun hefur unnið náið með Icelandic Startups um árabil. Við komum á fót sambærilegu verkefni fyrir sjö árum þar sem áhersla var lögð á að draga fram nýjar hugmyndir í orkutengdum iðnaði. Á meðal þátttakenda voru fyrirtækin Laki Power og Keynatura sem eru í miklum blóma. Nú leggjum við áherslu á græna orkunýtingu og aukna verðmætasköpun í hátæknimatvælaframleiðslu og líftækni. Í samstarfi við Orkídeu viljum við sérstaklega varpa ljósi á tækifæri sem felast í sjálfbærri orkunýtingu á Suðurlandi.“

Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups:

„Okkar markmið er að samstarfið við Orkídeu verði til þess að efla enn frekar sjálfbæra verðmætasköpun, fjölga vel launuðum störfum og auka útflutning sem byggir á hugviti.“

Nánari upplýsingar má finna á vefsíðunni startuporkidea.isorkidea.is og hjá Icelandic Startups.