Magnús Bragason

2019
Miklar væntingar voru hjá okkur ferðaþjónustuaðilum í Vestmannaeyjum fyrir sumarið 2019, þar sem að siglt yrði til Landeyjahafnar á nýrri ferju sem koma átti í lok vetrar. Málarekstur Vegagerðarinnar og skipasmíðastöðvarinnar tafði afhendingu nýju ferjunnar. Nýr Herjólfur kom ekki fyrr en 19.júní 2019 og hóf áætlunarsiglingar í lok júlí. Umfjöllun fjölmiðla var neikvæð og dró úr áhuga fólks að koma til Vestmannaeyja sumarið 2019.

2020
Með nýrri ferju hefur oftar verið siglt til Landeyjahafnar og er það forsenda flestra ferðamanna fyrir ferðinni til Vestmannaeyja. Í vor og haust var hótelið mikið bókað. Mest voru það hópar sem áttu bókaða gistingu vegna árshátíðarferðar, funda og ráðstefna. Þetta hefði getað verið besta ár í okkar níu ára rekstri…þá kom COVID19.

Hrun í komu erlendra ferðamanna
Rúmlega helmingur okkar gesta eru erlendir ferðamenn. Það varð algjört hrun í komu þeirra. Bókanir fyrir sumarið 2020 hafa aldrei áður verið fleiri og var bjart yfir rekstrinum. Má nánast segja að allir sem áttu bókað í sumar komu ekki sökum faraldursins. Áætluð upphæð á afbókunum er 60.000.000 kr.og er þá aðeins verið að tala um þá sem voru búnir að bóka fyrir febrúarlok.

Lækkað verð á gistingu
Við héldum úti fullum rekstri allt árið. Ófyrirsjáanleikinn var algjör og ekki hægt að segja til um  hvernig þróun faraldursins yrði. Þar að leiðandi höfðum við opið, með þá von í brjósti að aðstæður myndu lagast. Við náðum þó að fá innlenda gesti til okkar í júní og júlí, en upphæðin sem þeir greiddu fyrir hvert herbergi var mun lægri en voru árin á undan. Íslensku ferðamennirnir gerðu kröfu um að verð á gistingu mundi lækka í ljósi þess að það væri faraldur. En voru tilbúnir að greiða sama verð fyrir mat og drykk. Það kom sér vel fyrir stór hótel sem reka saman gistingu og veitingastað, en svo er ekki hjá okkur í Eyjum.

Töpuð innkoma
Þegar gestur kemur ekki á veitingastaðinn eða í gistinguna, hvort sem það er vegna samgönguvandræða eða faraldursins, þá er það töpuð innkoma. Það breytir litlu að hann komi á næsta ári, þú hefðir þurft að fá gest þann dag hvort sem er.

Fasteignaskattur
Flestir skattar sem eru lagðir á fyrirtæki eru veltutengdir. Þannig að ef vel gengur skilar sér meiri arður til allra, eiganda, launafólks og hins opinbera. Þetta eru launatekjuskattar, virðisaukaskattur og auðlindagjöld. Það sama á ekki við um fasteignaskatt. Hann er ákveðin krónutala sem bæjarstjórn er skilt er að leggja á.  Hún hefur hins vegar val um hve hátt hlutfallið eigi að vera. Vestmannaeyjabær hefur verið með hæstu mögulegu álagningu. Það er erfitt að standa í skilum þau mánaðarmót, þegar öll innkoma dugar ekki fyrir fasteignagjöldum.

Samstaða
Ég hef setið í stjórn Ferðamálasamtaka Vestmannaeyja síðan 2012. Það hefur lengi verið draumur okkar að fara í markaðsátak Núverandi stjórn er skipuð öflugu fólki og get ég fullyrt að hún er búin að leggja á sig mikla vinnu sem skilar sér fyrir alla í Eyjum. Það hefur ríkt eining innan samtakanna og allir að róa í sömu átt.

Vestmannaeyjar 2023
Ég kom með tillögu að markaðsátakinu Vestmannaeyjar 2023 og var hún lauslega kynnt á fundi sem við héldum með bæjarstjórn og stjórn Herjólfs miðjan desember 2019. Hugmyndin var að átakið tæki þrjú ár og myndi ljúka árið 2023. Þá eru 50 ár frá goslokum. Var vel tekið í hugmyndina, en þá vissum við ekki hvað við áttum í vændum tveimur mánuðum síðar.

Vestmannaeyjar-alltaf góð hugmynd

Þrátt fyrir mikla erfiðleika sökum COVID19 ákváðum við að gefast ekki upp. Samtökin átti gott samtal við bæjarstjóra og framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs. Ákveðið var að fara í átak innanlands undir heitinu Vestmannaeyjar – alltaf góð hugmynd. Bæjarstjórn samþykkti að setja 12.000.000 kr. í átakið á móti 4.500.000 kr. framlagi Ferðamálasamtakanna.

Skilar sér til baka

Átakið tókst afar vel og hingað komu þúsundir innlendra ferðamanna. Við vitum ekki nákvæmlega um hvað þeir gerðu, hvar þeir borðuðu eða gistu. En við vitum að þeir komu allir með Herjólfi og bæjarsjóður rekur Herjólf. Það þurfti 3.000 gesti til Eyja til að átakið borgaði sig til baka fyrir bæjarsjóð. Átakið skilaði að mínu mati margfalt fleirum.

Aðstoð hins opinbera

Ég fór á fund með bæjarstjóra fyrir tveimur mánuðum síðan. Óskaði eftir að fá lækkun á fasteignagjöldum. Ég veit að slíkt hið sama hafa fleiri gert sem er í sömu stöðu og ég. Þeir hafa eflaust fengið sama svar og ég, bæjaryfirvöld mega ekki fella niður fasteignagjöld. Það eru sannarlega fleiri en hótel og gistiheimili í vanda. Sem dæmi fyrirtæki sem var gert að loka. En þau hafa rétt á að fá lokunarstyrki sem við fáum ekki.

Viðspyrnusjóður

Ég var glaður að sjá í Eyjafjölmiðlum að bæjarráð hafi sett a laggirnar viðspyrnusjóð og bæjarstjórn staðfest þá ákvörðun. Sjóð sem á að koma til móts við fyrirtæki sem fóru illa út úr COVID19 faraldrinum. Einnig var ákvað bæjarstjórn að fara í markaðsátak með Ferðamálasamtökunum árið 2021 og bætir í frá því fyrra átaki.

Ég vil hrósa bæjarstjóra, bæjarstjórn og framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs fyrir vel unnin störf á erfiðum tímum.

 

Magnús Bragason