Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið mun semja við Icelandair um lágmarksflug milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja til 1. maí á næsta ári. Farnar verða að tvær ferðir í viku, fram og til baka. Stefnt er að því að flugið hefjist í næstu viku.

Áætlunarflug á markaðslegum forsendum milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja lagðist af í september vegna minni eftirspurnar sem rekja mátti til Covid-19 faraldursins. „Það er afar þýðingarmikið að tryggja lágmarksþjónustu á þessari flugleið á meðan ekki eru markaðslegar forsendur í flugi. Við vonum að með vorinu taki ferðaþjónusta við sér að nýju og aftur verði hægt að fljúga með reglubundnum hætti til Eyja,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Gerð var verðkönnun hjá þremur flugrekendum, en það voru Flugfélagið Ernir, Icelandair og Norlandair. Öll félögin bjóða þegar upp á áætlunarflug og nota bókunarkerfi með tengingu við Loftbrú, sem veitir íbúum landsbyggðarinnar 40% afslátt á flugfargjöldum.

Hægt verður að framlengja samninginn við Icelandair um tvær vikur í senn ef þörf krefur. Sömuleiðis má fella samninginn niður án fyrirvara hefjist áætlunarflug á markaðslegum forsendum að nýju innan gildistíma hans. Allar tekjur Icelandair af miðasölu og fraktflutningum á flugleiðinni munu lækka greiðslur vegna samningsins.