Jól í Vestmannaeyjum eru eðall á háu stigi. Eyjamenn í tímabundnum útlegðum víða um heim flykkjast aftur í Paradís og algengt er að ýmis mót séu sett í gang og þjóðaríþrótt Eyjamanna „Keppnin“ í hverju sem er fær að blómstra. Í gegnum útlegðarár mín lagði ég ýmislegt á mig til að ná jólum í Vestmannaeyjum í tæka tíð. Ég tefldi sem dæmi á tæpasta vað þegar ég var að koma heim frá Japan með Guðnýju minni og Sigurjóni Viðars árið 2006 eftir fjögurra mánaða heimsferðalag og við keyrðum frá Keflavíkurflugvelli í blindbyl 23. desember og náðum Herjólfi 5 mínútum áður en hann lagði úr höfn í seinustu ferð dagsins. Ferðir næstu daga féllu niður vegna veðurs hjá Herjólfi og við því innilokuð á Eyjunni en ekki fyrir utan hana blessunarlega. Ég man að ég fór síðan út á svalir hjá mömmu og pabba á Helgafellsbrautinni og horfði yfir fegurðina sem blasti við, Heimaklettur faðmaði frá norðri og Helgafell frá suðri og ég hugsaði: „Ég er búinn að ferðast til 11 landa og 33 fylkja í Bandaríkjunum undanfarna fjóra mánuði á staði sem eiga að vera mestu náttúruperlur veraldar en þetta er fallegasta útsýni sem ég hef séð á árinu“. Ég fór síðan inn í eldhús og setti brúnu randalínuna hennar mömmu á disk ásamt sírópstertunni sem mamma lærði að gera hjá Ellý Vilhjálms og labbaði með diskinn inn í stofu þar sem ég horfði á Home Alone í appelsínugula sófanum hjá mömmu og pabba. Seinna um kvöldið fór ég út í Tvist og keypti alltof mikið af sælgæti og var síðan langt fram á nótt heima hjá Unni og Simma tengdó að spila borðspil með gamla genginu, þar sem ég vann pottþétt Sigurjón og Óla tengdabróður (ég man ekki hvaða spil við spiluðum, ég man bara að ég vinn alltaf Sigurjón). Já lífið var ljúft.

Í dag er ég ekki lengur í útlegð. Ég tók það heillaskref fyrir tveim árum að flytja aftur heim. Ákvörðun sem varð stærsta einstaka lífsgæðastökk ævi minnar. Í fyrra hélt ég jól í mínu eigin húsi í fyrsta sinn og það kallaði á annars konar undirbúning heldur en að troðfylla bílinn af dóti rétt fyrir jól, bruna í Herjólf og reiða sig síðan á gestrisni og jólakósíheit mömmu og pabba og tengdó. Ég þurfti þess vegna að kaupa jólaseríur í Vestmannaeyjum, fara í AxelÓ og Sölku til að kaupa jólagjafir, byggja a.m.k. þrjá snjókalla í garðinum, fara

Börn Tryggva, Bjartur og Eva Eldey í sama faðmi einhverju síðar

með börnin á Stakkó að renna og hlusta á lúðrasveitina á Þorláksmessu. Ég fann hvernig bærinn fylltist rólega af spennu og það birti yfir húsi eftir húsi með jólaskrauti. Ég sá hvernig líknarfélög, Kirkjan, félagasamtök og einstaklingar lögðu sig fram við að hjálpa

náunganum. Hvernig nágrannar klæddu sig í jólabúninga til að gleðja börnin í næsta hú

si (Takk Kiddi nágranni fyrir að ná því að vera jólasveinninn okkar í 5 ár áður en ég fattaði hver þetta var). Ég fékk að upplifa hvernig það er að vera partur af samfélagi og öryggisneti sem einstaklingur ábyrgur fyrir eigin fjölskyldu um jólin.

Þvílíkt samfélag!

Ég man að ég hugsaði um atriðið í lokin á „It´s a wonderful life“ þegar aðal söguhetjan George Baily hleypur um smábæinn sinn eftir að hafa séð hvernig lífið hefði þróast ef hann hefði ekki fengið að lifa því og kallar „Gleðileg jól“ til allra bæjarbúa. Mig langaði í alvörunni að gera þetta.

Í gegnum þessa upplifun hefur mér fundist það vera auðveldara að tengja betur inn í upprunalega jólaboðskapinn, að fagna fæðingu Frelsarans. Sigur Ljóssins! Mér finnst ég beintengdari við hann þegar ég er í Vestmannaeyjum. Ég er meðvitaðari um náungann hér í Vestmannaeyjum, sorgir hans og gleði og finn því meira til og samgleðst en ella. Ég sé vini hjálpast að, hengja upp jólaseríur í blíðviðri saman og bjarga þakinu saman þegar lognið fer aðeins hraðar yfir. Ég sé hjúkkurnar á spítalanum leggja sig fram um að lyfta jólaandanum hjá þeim sem dvelja þar yfir hátíðina. Ég sé Eyjamenn forgangsraða að versla í heimabyggð. Ég sé framlag vinnustaða til að gera jólin hátíðlegri og starfsfólk að miðla gæðum, hvort sem það eru sjómenn að gefa fisk eða leikskólakennarar að koma til móts við börnin og foreldra með ýmsum hætti.

Jólin eru samt erfið fyrir marga á því er enginn vafi. Einmannaleiki, sjúkdómar og ástvinamissir hrjá okkur flest einhvern tímann á ævinni en bíta oft verr yfir hátíðina. Á slíkum tíma er vinur og samfélag ómetanleg auðlind og það í verkahring hvers og eins að horfa í kringum sig og sjá hverjir þarfnast auka snertingar, hlustunar eða jafnvel fjárstuðnings. Öll höfum við eitthvað að gefa.

Mér er hugsað til lokaorða „It´s a wonderful life“ þegar engillinn segir við George: „Mundu að enginn maður er fullkomlega misheppnaður sem á vin“. Það er í getu- og verkahring okkar allra að vera vinur, með því getum við orðið ljósgeisli fyrir einstakling á erfiðum tíma og jafnvel bjargað lífi. Það er fullkomlega í anda þeirrar sjálfsfórnar, samkenndar og kærleika sem Frelsarinn sem við minnumst á Jólunum boðaði með lífi sínu að horfa í kringum okkur þessi jól og spyrja: „hverjum get ég veitt ljóstíru?“.

Gleðileg jól kæru vinir og „samlandar“

Tryggvi Hjaltason