Settu upp vindpoka í Herjólfsdal

Nýlega var settur upp vindpoki í Herjólfsdal, svæðið nýtur mikilla vinsælda hjá göngu og útivistarfólki. Það er Arnar Richardsson sem á frumkvæði af þessu skemmtilega framtaki. Arnar rekur hér fyrir okkur forsögu málsins. „Það var dag einn í nóvember veðurblíðunni sem ég var að hjóla inn í Herjólfsdal og hitti þar fyrir hjónin Sigurfinn Sigurfinnsson og Þorbjörgu Júlíusdóttur sem voru þar í sinni daglegu heilsubótargöngu. Í spjalli spurði Finnsi mig hvort það væri mikið mál að fá vindpoka eins og eru við flugvöllinn, göngu kallarnir höfðu verið að spjalla um það hvort það væri ekki sniðugt að vera með vindpoka í dalnum. Ég hélt nú að það væri ekki mikið mál og sagðist ég myndi skoða það.  Mig rámaði nefnilega í  að hafa séð innslag í Landanum frá saumastofu á Vopnafirði sem hafi verið að gera þessa vindpoka. Það passaði og fann ég upplýsingar á netinu um Jónsver ses saumamiðstöð sem er lítið sameignarfélag í eigu Sjálfsbjargar, félags fatlaðra og félags eldri borgara á Vopnafirði. Ég pantaði einn poka og var hann kominn hingað til Vestmannaeyja 5 dögum seinna. Þá hófust pælingar um staðsetningu fyrir pokann, ég fékk Guðjón Pálsson með mér í lið þar sem ég vissi að hann hefði góð sambönd varðandi Vatnspóstinn í dalnum. En þess má geta að Jarlinn á vatnspóstinum (Palli í Mörk) er einmitt faðir Guðjóns. Þegar samþykki Palla lá fyrir þá ákváðum við að byrja með pokann þar og kemur hann bara nokkuð vel út þar.“

Arnar og Guðjón með pokann í bakgrunni

VMB Hvatningarverðlaun

Mest lesið