Þóra Hrönn Sigurjónsdóttir stendur í ströngu þessa dagana en eins og við höfum áður greint frá opnaði hún nýja fataverslun við Vestmannabraut 37 nú í desember. Þóra Hrönn selur eingöngu notuð föt. Verslunin heitir Kubuneh en það er nafnið á þorpi í Gambíu þar sem Þóra hefur komið að hjálparstarfi en öll afkoma af versluninni rennur til hjálparstarfs í þorpinu. Þetta er ekki eini nýi reksturinn hjá Þóru Hrönn heldur hefur hún einnig tekið við rekstri á heilsugæslunni í fyrrnefndu þorpi í Gambíu. Í því felst meðal annars að greiða laun starfsfólks og lyf fyrir sjúklinga. Árlega leita 12-15 þúsund manns til heilsugæslunnar. Þóra Hrönn hefur einnig látið umhverfismál, endurvinnslu og bætta nýtingu sig varða og beitt sér á þeim vettvangi. Þóra Hrönn er að mati Eyjafrétta Eyjamaður ársins og hlýtur að því tilefni Fréttapýramídann 2020. Nánar er rætt við Þóru Hrönn í nýjasta tölublaði Eyjafrétta sem dreift verður í dag.