Lögð var fyrir á fundi bæjarráðs á miðvikudag gjaldskrá vegna álagningar fasteignaskatts, holræsagjalds, sorpeyðingar- og sorphreinsunargjöld fyrir árið 2021. Sömuleiðis voru lagðar fram reglur um afslátt af fasteignagjöldum hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum með lögheimili í Vestmannaeyjum. Gert er ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi milli ára.

Bæjarráð samþykkir óbreytt fyrirkomulag afsláttarkjara til handa elli- og örorkulífeyrisþegum við álagningu fasteignagjalda á árinu 2021. Viðmiðunartekjur einstaklinga verði 5,5 m.kr. fyrir fullan afslátt og afsláttur lækki í þrepum eftir hækkun tekna upp í 6,0 m.kr. Fyrir hjón nemi viðmiðunartekjur 7,5 m.kr. fyrir fullan afslátt sem lækkar í þrepum eftir hækkun tekna upp í 8,5 m.kr. Veittur verði flatur 85% afsláttur af sorpeyðingargjöldum og lóðaleigugjaldi til handa öllum þeim sem náð hafa ellilífeyrisaldri 67 ára og eldri.

Tillagan var samþykkt með tveimur atkvæðum fulltrúa E og H lista gegn einu atkvæði D lista.

Vill létta frekar álögur
Fulltrúi D lista bókaði eftirfarandi “Undirrituð ítrekar fyrri bókanir Sjálfstæðismanna um að létta frekar álögur sem fengnar eru með skattheimtu fremur en að veita afslætti af gjaldskrám.”

Því var svarað með bókun frá fulltrúum E og H lista. “Sjaldan eða aldrei hafa álögur á íbúa verið lækkaðar jafn mikið og á yfirstandandi kjörtímabili. Mikilvægt er að veita öldruðum og öryrkjum afslátt af gjöldum, þó með löglegum hætti.”

Gjaldsskrá fyrir árið 2021 og reglur um afslátt af fasteignagjöldum – lagt fyrir bæjarráð.pdf