Olís deild kvenna fer aftur af stað í dag eftir 112 daga stop en ekki hefur verið leikið í deildinni síðan 26. September. ÍBV stelpurnar mæta Fram í Framhúsinu klukkan 14:30 í dag. ÍBV situr á toppi deildarinnar með fimm stig eftir þrjár umferðir. Við heyrðum í Sunnu Jónsdóttur fyrirliða ÍBV og fórum aðeins yfir stöðuna með henni.

Sunna Jónsdóttir 

Reynt að vera jákvæð og gert það besta úr stöðunni
„Við rennum nokkuð blint í sjóinn eftir langa Covid pásu eins og öll lið og leikmenn væntanlega. Við höfum hins vegar verið ótrúlega duglegar að æfa og halda okkur við þrátt fyrir æfingabann. Við höfum reynt að vera jákvæð og gert það besta úr stöðunni. Siggi lét okkur til dæmis ganga upp á amk einn tind á viku og svo tókum við þátt í að leggja göngustíg upp Dalfjallið sem var algjört stuð. Þegar við fengum grænt ljós á að byrja æfa saman aftur höfum við nýtt tímann mjög vel við æfingar. Það er mikill vilji í hópnum í að bæta okkur sem lið og leikmenn og reyna að ná árangri þannig ég tel okkur bara í nokkuð góðu standi og klárar í slaginn.“

Sunna segir að liðið hafi ekki náð að spila neina æfingarleiki á síðustu vikum. „Við erum hins vegar komnar með það góða breidd í liðið okkar að við getum stillt upp í tvö hörkulið á æfingum og það er alltaf keppni! Eins höfum við stundum spilað við 4. flokk karla ÍBV sem hefur reynst okkur vel, en ekki núna náttúrlega þar sem þeir hafa ekki mátt æfa því miður.“

Spennustigið er í hámarki
Það er mikill spenningur í hópnum fyrir því að byrja að keppa aftur að sögn Sunnu. „Framhaldið leggst sjúklega vel í mig og okkur og við bara getum ekki beðið eftir að byrja að spila. Við erum búin að leggja mjög hart að okkur og vonandi á það eftir að skila sér þegar út í alvöruna er komið. Við byrjum strax á stórleik á móti Fram sem hefur trónað á toppnum undanfarin áratug eða meira. Svo er ansi stíft leikjaprógramm fram undan og þetta verður vonandi bara frábær byrjun á árinu og góðir vormánuðir án fleiri Covid stoppa. Spennustigið er í hámarki Og það er bara eðlilegt held ég. Maður finnur að það liggur eitthvað í loftinu og þrátt fyrir áhorfendabann finnur maður fyrir stuðningnum frá okkar frábæru stuðningsmönnum og fólkinu sem vinnur bak við tjöldin,“ sagði Sunna hress að lokum.