Sem framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar vill undirritaður koma á framfæri athugasemdum og útskýringum til blaðsins vegna innihalds í grein sem birtist í Eyjafréttum 1. tbl. 48. árg. þann 13.01.2021 undir fyrirsögninni „Grímulausir gjörningar“. Það skal tekið skýrt fram að tilgangurinn er ekki að taka þátt í deilumáli pólitískra flokka um umsóknar- og ráðningarferla hjá sveitarfélaginu. Ástæðan er fyrst og fremst að leiðrétta og útskýra ráðningu yfirmanns í vinnu- og hæfingarstöðinni Heimaey, verkferla og val á yfirmanni og verja þá starfsmenn sem vinna hjá Vestmannaeyjabæ.

Í greininni er sagt að umsóknir hafi verið sendar á starfsmann sveitarfélagsins sem í þessu tilfelli er ég. Það er ekki rétt. Umsóknirnar voru allar sendar beint til mín en ekki á mig (!). Í reglum bæjarins er það framkvæmdastjóri sviðs sem ræður í stöðu yfirmanna annarra en framkvæmdastjóra sviða og bæjarstjóra. Framkvæmdin, vinnan og umsjón með ráðningunni var því alltaf í mínum höndum.

Áfram í greininni er svo sagt; „Eftiráskýringar hafa þó leitt í ljós að leitað var aðstoðar ráðningarskrifstofu á síðari stigum málsins.“ Nú veit ég ekki hvaðan þessar upplýsingar koma en þetta er ekki heldur rétt (!). Í núverandi reglum Vestmannaeyjabæjar er okkur framkvæmdastjórum gert að leita aðstoðar ráðningarskrifstofa í þeim tilfellum sem verið er að ráða í yfirmannsstöður með mannaforráð. Það var gert í þessu tilfelli.

Varðandi aðkomu ráðningarskrifstofa þá er rétt að geta þess að þær eru einungis til ráðgjafar en taka aldrei við eða yfir ákvörðunarþáttinn við ráðningar. Ábyrgðin á ráðningu verður alltaf hjá yfirmanni hvað sem menn halda með aðkomu ráðningarskrifstofa að ráðningu.

Síðasta athugasemdin mín er svo setningin þar sem vegið er að ákvöðuninni um ráðningu þar sem sú sem ráðin var sé eiginkona sjálfs forseta bæjarstjórnar (!). Það er sjálfsagt mál að koma með athugasemdir með vinnubrögð mín sem yfirmanns hjá bænum en að vega að starfsmönnum Vestmannaeyjabæjar fyrir það hvað þeir eru er að mínu mati lákúra sem á ekki að þekkjast. Því miður hefur það viðgengist t.d. í kostningabaráttunni á sínum tíma. Vinsamlegast hættum því.

Ráðningamál eru eitt af því erfiðasta sem ég tekst á við í mínu starfi og er þó margt þar krefjandi og viðkvæmt. Oft þarf að velja úr mörgum mjög hæfum umsækjendum, sem  eru dætur og synir fólks sem ég þekki vel, frændur og frænkur, vinir og vinkonur o.þ.h. Það er sárt að geta ekki ráðið alla. Ef tengslin eru of mikil óska ég eftir aðkomu annarra að ráðningunni. Hlutverk mitt og skylda er að ráða hæfasta aðilann í starfið og þá ákvörðun þarf ég að geta rökstutt.  Fylgja verður ferlum stjórnsýslunnar og ráðning að byggja á forsendum atvinnuauglýsingar, hvorki meira né minna.

Með vinsemd og virðingu
Jón Pétursson framkvæmdastjóri
Fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar