„Fyrsti veiðidagurinn okkar var 10. janúar og við höfum fengið þetta sjö til níu tonn á dag en aflinn í gær var tuttugu tonn og verður enn meiri í dag. Það er með öðrum orðum bullandi veiði og mætti halda að kominn væri marsmánuður en ekki miður janúar!

Vetrarvertíðin byrjar af meiri krafti nú en ég hef upplifað áður og fiskurinn er bæði fallegur og góður til vinnslu. Það er því hreint ekki yfir neinu að kvarta og vel viðrar líka á okkur.  Veðurlagið núna á ekkert sameiginlegt sem við kynntumst á sama tíma í fyrra,“ sagði Kristgeir Arnar Ólafsson, skipstjóri í brúnni á Kap II VE, á veiðum á Breiðafirði í dag (þriðjudag 19. janúar).

Kap II í Vestmannaeyjahöfn

Það lá þannig ofurvel á kapteininum á Kap og hann brosti nánast hringinn. Það heyrðist einfaldlega á hljómfallinu í röddinni og þurfti engan myndsíma til að fá stemninguna um borð staðfesta.

„Já, víst er óhætt að segja að þessi vika hafi byrjað með trukki hjá okkur. Breki og Drangavík lönduðu fullfermi á sunnudaginn, Kap II landaði á Grundarfirði í gærkvöld og Brynjólfur landaði í dag og skiptir í framhaldinu yfir á net,“ segir Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri botnfiskssviðs Vinnslustöðvarinnar.

úr fiskvinnslu VSV

„Vetrarvertíðin fer mjög vel af stað, einum mánuði fyrr en venjulega. Við erum á fullu við að fletja fisk til söltunar og pökkunar fyrir Portúgalsmarkað og fáum líka afla af Bárði SH eftir landanir á Grundarfirði. Sömuleiðis kaupum við hráefni til vinnslu á fiskmörkuðum.“