Næstkomandi laugardag, 23. janúar, verða liðin 48 ár frá upphafi Heimaeyjargossins. Alla tíð síðan hefur þessi viðburður markað og litað mannlífið í Eyjum. Fyrst var það baráttan við gosið og baráttan um byggðina, síðar hreinsunin og uppbyggingin og síðar baráttan við að sætta sig við breytta bæjarmynd, breytta Heimaey. En alltaf var það samstaðan sem kom okkur Eyjamönnum í gegnum þetta. Í dag er uppi ótrúleg staða, við megum ekki koma saman og minnast, megum ekki hittast og faðmast og sýna hvert öðru samhug.
Því ætlar goslokanefnd að bjóða upp á minningarstund frá Landakirkju sem streymt verður á Youtube. Minningarstundin hefst kl. 20.00 og þar mun bæjarstjórinn okkar Íris Róbertsdóttir flytja ávarp, séra Viðar Stefánsson flytja hugvekju og listafólk úr Eyjum flytja okkur nokkur lög. Undirbúningur hefur verið í höndum Birgis Nielsen (trommur), Gísla Stefáns (gítar) og Bjarna Ólafs sem kynnir en aðrir listamenn eru Þórir Ólafs (hljómborð), Kristinn (Diddi) Jónsson (bassi) og söngvarar þau Sara Renee, Jarl Sigurgeirs, Þórarinn Ólason og Unnar Gísli Sigurmundsson. Um tæknimál sér Arnar Júlíusson. Við hvetjum alla Eyjamenn og velunnara Eyjanna nær og fjær til að eiga með okkur góða stund á laugardagskvöld kl. 20.00.
Látum sem flesta vini okkar og ættingja vita af þessu.