Blátindur VE 21 var til umræðu á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja. Þar kom fram að bæjarstjórn er sammála afgreiðslu framkvæmda- og hafnarráðs ráðið samþykkti að fela framkvæmdastjóra að óska eftir afstöðu Minjastofnunar til förgunar á Blátindi þar sem kostnaður við endurgerð Blátinds er mjög mikill og ekki talið verjandi að eyða slíkri fjárhæð í endurbyggingu.

Hugmyndir um framtíðarvarðveislu útgerðarsögu
Á fundinum var einnig samþykkt eftir farandi tillaga. “Bæjarstjórn felur Helgu Hallbergsdóttur, fyrrv. safnstjóra í Sagnheimum, Kára Bjarnasyni, forstöðumanni Safnahúss Vestmannaeyja og Ólafi Snorrasyni, framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs, að leggja mat á muni bæjarins er varða útgerðarsögu Vestmannaeyja og setja fram hugmyndir um framtíðarvarðveislu þeirra.
Hópnum er m.a. falið að kanna hvort hægt sé að koma vélbátnum Létti fyrir í húsnæði Vestmannaeyjahafnar á Skanssvæðinu og varðveita þar bátinn og aðrar sjóminjar. Hópnum er sömuleiðis falið að leggja mat á þann kostnað sem fælist í verkefninu.
Þá skal sömuleiðis kanna möguleikann á að smíða líkan af m/b Blátindi sem yrði til sýnis í húsinu til að varðveita sögu skipsins.
Hópurinn mun skila skýrslu til bæjarráðs eigi síðar en í lok mars 2021.”