Upplýsingar um nýtingu frístundastyrkjar ársins 2020 voru lagðar fyrir fund Fjölskyldu- og tómstundaráðs í gær. Árið 2020 voru alls 600 börn og ungmenni í aldurshópnum 2 – 18 ára sem nýttu sér frístundastyrk Vestmannaeyjabæjar að hluta eða öllu leyti. Þetta er samtals 69% af börnum á þessum aldri og mikil hækkun frá árinu áður, 2019 þegar um 37% barna á þessum aldri nýttu sér styrkinn. Flestir nýta styrkinn til æfinga hjá ÍBV-íþróttafélagi en Fimleikafélagið Rán fylgir þar á eftir. Aðrir styrkir nýtast til annarra félagsstarfa s.s. Hressó, Sundfélagsins, Tónlistarskólans, GV, Skátafélagsins Faxa o.fl. Örlítið fleiri drengir en stúlkur nýta sér frístundastyrkinn en dreifingin milli kynja og árganga er misjöfn. Heildarkostnaður Vestmannaeyjabæjar vegna frístundastyrkjar fyrir árið 2020 var um 17,2 milljón og hækkaði um 1,5 milljón á milli ára (9,5%). Ráðið fagnar því að fjölgun sé á börnum sem nýta sér frístundastyrkinn og hvetur til aukinnar þátttöku barna í frístundastarfi. Ráðið þakkar kynninguna.