Bæjarstjóri lagði á þriðjudag fram drög að endurnýjuðum samningi Vegagerðarinnar og Vestmannaeyjabæjar um rekstur Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs fyrir bæjarráð. Samninganefnd Vestmannaeyjabæjar kynnti samninginn fyrir bæjarfulltrúum daginn áður. Samningurinn verður lagður fram til staðfestingar á næsta fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja. Samningurinn verður birtur þegar búið er að undirrita hann. Stefnt er að undirritun mánudaginn 8. febrúar nk.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að undirrita samning um rekstur Herjólfs fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar með fyrirvara um staðfestingu bæjarstjórnar. Bæjarráð vill jafnframt koma fram þakklæti til samninganefndarinnar fyrir vel unnin störf. Samningur sem þessi felur í sér fjárhagslega áhættu fyrir bæjarfélagið, en ávinningur samningsins er talinn meiri en áhættan. Það er jákvætt að Herjólfur ohf. fái með samningi þessum tækifæri til að vinna upp það tap sem orðið hefur á rekstri félagsins á árinu 2020.