Upplýsingar og yfirlit yfir umfang stuðningsþjónustu (félagslegar heimaþjónustu) á árinu 2020 var til umræðu á fundi fjölskyldu og tómstundaráðs í síðustu viku. Kolbrún Anna Rúnarsdóttir deildarstjóri stuðningsþjónustu fór yfir markmið stuðningsþjónustu og verkefni hennar fyrir árið 2020. Hjá stuðningsþjónustunni sem áður kallaðist félagsleg heimaþjónusta vinna 13 starfsmenn í 7,3 stöðugildum. Helsta verkefni þeirra er m.a. almenn heimaþjónusta, aðstoð við eigin umsjá, innlit og samvera, aðstoð við innkaup og heimsendur matur. Starfsmenn stuðningsþjónustu sjá um aðstoð við þjónustuþega sem búa í þjónustuíbúðum í Eyjahrauni. Árið 2020 nutu alls 122 þjónustuþegar þjónustu og voru af þeim 23 nýjir. Árið 2020 var frábrugðið öðrum árum vegna Covid-19 veirunnar sem veldur meira álagi á þjónustuþega sem og starfsmenn. Passað er vel upp á smitvarnir og starfsmenn sinnt þjónustunni af einlægni og alúð. Í byrjun ársins hætti eldhúsið á Hraunbúðum að sjá um heimsendan mat til þjónustuþega og stofnana bæjarins. SH heilsa tók við þessari þjónustu og í dag er á milli 50 – 70 skömmtum keyrt út daglega.