Þau tímamót urðu í dag að fjarfundarbúnaður var notaður í dómsal Héraðsdóms Suðurlands í Vestmannaeyjum í fyrsta sinn. Dómssalur héraðsdóms Suðurlands er í húsnæði sýslumanns í Vestmannaeyjum við Heiðarveg og samnýta stofnanirnar fjarfundarbúnað í sinni starfsemi, sýslumaður fyrir fundi og fyrirtökur og héraðsdómur við meðferð dómsmála. Sérstakar heimildir þurfti til að sýslumenn og dómstólar gætu nýtt sér þessa tækni við meðferð mála en þær heimildir skipta sköpum þegar kemur að því að auka skilvirkni og bæta þjónustu. Ófærð og veður hefur þannig minni áhrif á starfsemi þessara stofnana hér í Eyjum en tækifæri til að geta tekið mál fyrir með fjarfundarbúnaði dregur úr tilefnum til að fresta málum og getur þannig haft áhrif á málshraða. Þá hlýst aukið hagræði og tímasparnaður fyrir þá sem boðaðir eru til fyrirtöku hjá stofnununum tveimur.

Við notkun dómstóla á fjarfundarbúnaði þarf að tryggja að tækjabúnaður bjóði bæði upp á fjarfund og upptöku á öllu sem fer fram í hljóð og mynd. Umræddar heimildir dómstóla eru tímabundnar og komu til vegna heimsfarldurs COVID-19.