Herjóflur hefur þurft að fella niður ferðir síðustu daga vegna sjávarstöðu eins og fram hefur komið í tilkynningum frá félaginu. G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar sagði í samtali við Eyjafréttir að í febrúar hafi safnast í skafl í hafnarmynninu, sem sjá má á meðfylgjandi mynd sem sýnir dýpið á mánudag, á sama tíma hefur ekkert veður verið til dýpkunar.

Vonumst til að hún nái að dýpka í hafnarmynninu næstu daga
“Nú er kominn dýptarmælir í Herjólf þannig að auðveldara er að fylgjast með dýpinu hverju sinni. Dísan leggur af stað í Landeyjahöfn í dag og við vonumst til að hún nái að dýpka í hafnarmynninu næstu daga. Dýpið er samt orðið það lítið að dýpkunin er líka háð sjávarstöðu og viðkvæmari fyrir ölduhæð en þegar dýpið er minna. Dýptarmælingin miðast við lægstu sjávarstöðu, þ.e.a.s. stórstraumsfjöru þannig að þegar er flóð er vatnsdýpið meira en þessar tölur segja til um. Það er ástæða þess að Herjólfur hefur nú siglt í Landeyjahöfn eftir sjávarstöðunni.”

Herjólfur III hefði alls ekki náð því
Pétur segir það mikið fagnaðarefni að hið nýja skip geti siglt í höfnina við þessar aðstæður. “Herjólfur III hefði alls ekki náð því en það er nú mögulegt vegna þess hvernig nýi Herjólfur ristir og vegna þess að skipstjórarnir hafa nú fengið það góða og mikla reynslu af sjóhæfni Herjólfs að mögulegt er að fara inn og út úr höfninni þrátt fyrir að dýpið sé ekki meira en þetta. Vonandi gefa náttúruöflin okkur færi á að lækka þennan skafl svo mögulegt verði að sigla allar ferðir í Landeyjahöfn.”

Varðandi viðhaldsdýpkunina almennt þá staðfesti Pétur að Vegagerðin með samning við Björgun um að sinna dýpkun í Landeyjahöfn til 1. maí ef þess þarf.