Ánægðir Eyjamenn!

Páll Magnússon

Á gönguferð um helgina var ég að velta fyrir mér nýjum fréttum af því að Eyjamenn eru ekki aðeins ánægðastir allra landsmanna með búsetuskilyrði sín – heldur líka hamingjusamastir allra á Íslandi! Þá röðuðust upp í hausinn á mér ótrúlega margir jákvæðir hlutir sem hafa verið að gerast í Vestmannaeyjum síðustu misserin. Nefnum nokkra af handahófi í belg og biðu – og ekkert endilega í réttri tíma- eða mikilvægisröð:

 • Ný nálgun við dýpkun Landeyjahafnar þar sem yfirlýst markmið er að halda henni opinni allt árið – og nú er að líða annar veturinn í röð þar sem höfnin hefur ekki lokast vegna sandburðar og grynninga.
 • Fyrsta skrefið tekið í heildarúttekt á Landaeyjahöfn með það fyrir augum að bæta hana til framtíðar.
 • Gerður nýr samningur um rekstur Herjólfs sem minnkar óvissu og áhættu bæjarins af rekstrinum.
 • Air Iceland Connect ákveður að hefja áætlunarflug til Eyja í apríl og það tókst að tryggja lágmarksflugþjónustu við Eyjar þangað til.
 • Samningar takast við Háskólann í Reykjavík og menntamálaráðuneytið um nám í íþróttafræðum á háskólastigi í Vestmannaeyjum.
 • Samningur gerður við menntamálaráðuneytið, Háskóla Íslands og Samtök atvinnulífsins um rannsóknar- og þróunarverkefni við Grunnskóla Vestmannaeyja.
 • Viljayfirlýsing undirrituð um gerð baðlóns í nýja hrauninu sem gæti orðið stórkostleg lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna í bænum.
 • Samningar vonandi að takast við tvö ráðuneyti um að reka stafræna smiðju sem hluta af Þekkingarsetri Vestmannaeyja.
 • Ný samantekt sýnir að glæpatíðni er lægst í Vestmannaeyjum af öllum þeim stöðum á Íslandi sem kannaðir voru.
 • Vestmannaeyjabær stefnir í að vera rekinn með afgangi á síðasta ári – þrátt fyrir covid og loðnubrest – og gert ráð fyrir afgangi á þessu ári líka.
 • Og nú er loðnan komin eftir tveggja ára fjarveru!

Ég geri mér grein fyrir því að velgengni af því tagi sem hér er lýst er ekki endilega ávísun á aukna lífshamingju. En ég er viss um að hún hjálpar okkur Eyjamönnum til að brosa í kampinn – gleðjast yfir því sem hefur áunnist og horfa bjartsýn til þess sem er framundan.

Páll Magnússon

aðalfundur 2021
Uppbyggingarsjóður

Mest lesið