Um síðustu áramót tók gildi nýtt fjármögnunarlíkan fyrir heilsugæslu á landsbyggðinni. Þetta er liður í að innleiða þjónustutengda fjármögnun heilbrigðisþjónustu um allt land í samræmi við Heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Nýja kerfið byggist í meginatriðum á sömu þáttum og liggja til grundvallar fjármögnunarlíkans heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu sem innleitt var árið 2017 og hefur gefið góða raun. Markmiðið er að auka gæði og skilvirkni þjónustunnar og stuðla að því að grunnheilbrigðisþjónusta sé veitt í sem mestum mæli á heilsugæslustöðvum. Greiðslur taka mið af þjónustuþörf notenda

Við þróun fjármögnunarkerfisins var byggt á þekktri aðferðafræði sem þróuð hefur verið og notuð víða, m.a. í Svíþjóð. Gerðar eru skýrar og samræmdar kröfur til þjónustuveitenda og leitast við að gæta jafnræðis þeirra á milli og á milli notenda. Allir sjúkratryggðir íbúar landsins eru skráðir á heilsugæslustöð eða hjá sjálfstætt starfandi heilsugæslulækni. Fjármögnunin byggist á því hvernig samsetning hópsins er sem skráður er hjá viðkomandi heilsugæslustöð og hver sé vænt þjónustuþörf hópsins með hliðsjón af aldri, kyni og sjúkdómsbyrði. Einnig tekur kerfið tillit til félagslegra aðstæðna þeirra sem skráðir eru á stöðina og ýmissa fleiri þátta sem vitað er að hafa áhrif á kostnað við þjónustu heilsugæslustöðva. Í þessu felst að heilsugæslustöð fær t.d. meira greitt fyrir sjúkling sem er aldraður með þunga sjúkdómsbyrði heldur en þann sem er á besta aldri og almennt við góða heilsu.

Í fjármögnunarlíkani heilsugæslu á landsbyggðinni hafa verið gerðar nokkrar viðbætur og breytingar frá líkani höfuðborgarsvæðisins. Til dæmis hefur verið bætt við þáttum sem taka tillit til smæðar einstakra heilsugæslustöðva, fjarlægðar á milli starfsstöðva sem heyra undir sömu heilsugæslu, álagi vegna vaktþjónustu og slysa- og bráðamóttöku.

Nýja fjármögnunarlíkanið nær til 33 heilsugæslustöðva á landsbyggðinni sem heyra undir sex heilbrigðisstofnanir. Margar heilsugæslustöðvanna eru með fleiri en eina starfsstöð og eru starfsstöðvarnar samtals 56.

Kerfi í stöðugri þróun
Meðfylgjandi eru skýrsla sem birtir fyrstu útgáfu fjármögnunarlíkans heilsugæslu á landsbyggðinni með kröfulýsingu, upplýsingum um gæðaviðmið og fleira. Einnig fylgir hér sambærileg skýrsla um fjármögnunarlíkan heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu árið 2021. Bent er á að fjármögnunarlíkön eins og hér um ræðir eru í stöðugri endurskoðun og þróun og geta tekið breytingum á milli ára. Þróun fjármögnunarkerfis heilsugæslu á landsbyggðinni hófst árið 2019 og hafa fulltrúar heilbrigðisstofnananna verið virkir þátttakendur í þróun kerfisins frá upphafi.