Ábendingar hafa borist Eyjafréttum um að MMR hafi nú í gær haft samband við fjölmarga Eyjamenn og lagt fyrir skoðanakönnun um Vestmannaeyjar“. Spurningarnar sem lagðar eru fram snúast m.a. um hversu ánægt eða óánægt fólk sé með störf Páls Magnússonar oddvita Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi annars vegar og með störf Írisar Róbertsdóttur bæjarstjóra hins vegar. Þá er einnig spurt um stuðning við stjórnmálaflokka bæði innanbæjar og í kjördæminu ásamt stuðningi til frambjóðanda í væntanlegu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í suðurkjördæmi. 

Viðmælandi Eyjafrétta, sem hafði fengið könnunina senda, taldi sérstakt að samtímis sé einhver sem greiði fyrir mælingar á viðhorfi til bæði Páls og Írisar, ekki síst í ljósi þess að Páll hefur lýst því yfir að hann hafi ekki tekið opinberlega afstöðu í bæjarstjórnarkosningunum síðustu.

Eyjafréttir óskuðu í gær eftir svörum frá Írisi og Páli við því hvort að þau hafi verið upplýst um að verið væri að vinna þessa könnun og þá hvort þau tengist henni með einhverjum hætti. Íris svaraði þessum spurningum neitandi en Páll hafði ekki svarað nú rétt fyrir hádegi.