Furðufiskar þorskstofnsins hafa yndi af því að láta áhafnir Vinnslustöðvaskipa veiða sig og enda ævina í Vestmannaeyjum.

Í fyrra urðu tveir fiskar landsþekktir og frétt um annan þeirra, „gulasta fisk íslenska þorskstofnsins“ var mest lesna fréttin á fréttavefnum mbl.is á árinu 2020. Áhöfnin á Drangavík VE fékk báða furðufiska liðins árs í sömu vikunni á svipuðum slóðum, við Surtsey.

Fyrr í þessari viku,  22. eða 23. mars, náði áhöfnin á Kap II enn einum furðuþorskinum en í þetta sinn í Breiðafirði. Þorskurinn var í afla sem landað var úr skipinu á Snæfellsnesi til flutnings landleiðina til vinnslu í Eyjum.

Þriðji fiskurinn er sýnilega bæði stærri og gerðarlegri en félagar hans úr furðufiskadeildinni sem héldu við Surtsey.

Við höfðum í fyrra eftir Gísla Jónssyni, sérgreinalækni fisksjúkdóma, hér á þessum vettvangi að furðufiskarnir bæru einkenni meðfædds erfðagalla.

Gunnar Jónsson fiskifræðingur fékk að sjá myndir af báðum þorskunum 2020 og hafði aldrei aðra eins fiska augum litið. Hann var á því að við Surtsey væri rekið „vistheimili fyrir erfðafræðilega afvegaleidda þorska.“

Nú blasir sem sagt við að annað furðufiskavistheimili er í Breiðafirði eða að Surtseyjarheimilið hefur opnað þar útibú.

  • Myndirnar af Breiðafjarðarfurðufiski tók Elmar Hrafn Óskarsson, gæðakall, ljósmyndari og ólaunuð eftirherma í frístundum.