Á fundi bæjarstjórnar síðastliðinn fimmtudag, 25. febrúar, fór bæjarstjóri yfir minnisblað frá framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs og yfirmanni tölvudeildar um stöðu undirbúnings ljósleiðaraverkefnis í þéttbýli Vestmannaeyja.

„Verkfræðistofan Efla hefur annast hönnun og sérfræðiráðgjöf. Hafin er gagnasöfnin sem nýtast mun verkefninu. Þéttbýlishluti verkefnisins er ekki styrkhæfur og verður því fjármagnaður af hálfu sveitarfélagsins. Fjarskiptafyrirtæki hafa lýst áhuga á að vera með í verkefninu,“ segir í fundargerð bæjarstjórnar.

Verið er að skoða hvaða rekstrarform henti verkefninu best. Að mati lögfræðings sem Vestmannaeyjabær leitaði til eru þrír valmöguleikar í stöðunni:
a. Reksturinn verði hluti af starfsemi Vestmannaeyjabæjar.
b. Reksturinn verði í opinberu hlutafélagi ohf.
c. Reksturinn verði í einkahlutafélagi ehf

Íbúafundur

Við fyrstu sýn er það mat lögfræðings að heppilegast sé að starfrækja verkefnið í einkahlutafélagi ehf. Miðað við umfang verkefnisins er það mat hans að betur fari á því að reksturinn verði í sérstöku félagi þar sem yrði starfandi stjórn og framkvæmdastjóri.

Markmiðið er að byggja ljósleiðarakerfið þannig upp að það nýtist sem flestum og standist tímans tönn. Engar hindranir verða í kerfinu sem henta einni tækni betur en annarri. Um er að ræða opið netkerfi þar sem að þjónustuveitur geta keypt aðgang og boðið upp á rafræna þjónustu.

Gróf tímalína verkefnis (skilgreint fyrir hvern ársfjórðung) er sundurliðuð í eftirfarandi töflu, með fyrirvara um breytingar og ófyrirséð atvik sem hugsanlega koma upp á hönnunartíma.

Framkvæmdahraði fer eftir fjármögnun og niðurbroti verkhluta, þ.e. hvað er í raun hægt að vinna á mörgum stöðum í einu. Líklegt er að hægt verði að stytta framkvæmdatímann verulega, en ómögulegt er að segja til um hversu mikið fyrr en frumhönnun liggur fyrir.

Áætlun um heildarkostnað verkefnisins liggur ekki fyrir fyrr en eftir hönnun kerfisins. Gróflega áætlaður heildarkostnaður er á bilinu 500-600 m.kr.