Hrognavinnsla hafin

Sigurður VE við löndun í morgunsárið

„Það er byrjað að landa úr Sigurði hann er með tæp 1000 tonn,“ sagði Eyþór Harðarson útgerðarstjóri hjá Ísfélaginu kátur í morgunsárið. Bæði Heimaey og Sigurður komu til hafnar í nótt en Heimaey var með fullfermi að sögn Eyþórs. „Við erum að dæla í nýju tankana núna í fyrsta skiptið. Tilkoma þeirra gerir það að verkum að hægt er að landa á löndunarhraða skipsins og senda það svo strax á veiðar í stað þess að taka þurfi tillit til þess sem vinnslan getur tekið á móti hverju sinni. Það kemur til með að flýta mikið fyrir því að senda skipin aftur af stað.“ Eyþór segir hráefnið sem skipin komu með gott. „Þetta er bara akkúrat komið í þessi gæði eins og maður vill sjá það á þessum tíma og verður vonandi næstu vikuna.“ Eyþór segir skipin hafa fengið góðan afla í gær en Álsey sé á miðunum komin með um 700 tonn. „Nú er bara allt á fullri ferð því hver dagur telur,“ sagði Eyþór að lokum.

Mest lesið