HSU tekur við rekstri Hraunbúða

Bæjarstjóri greindi frá fundi sem fulltrúar Vestmannaeyjabæjar og lögmaður áttu með fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins og forstjóra Sjúkratrygginga á fundi bæjarráðs í gær. Á fundinum var fulltrúum Vestmannaeyjabæjar tilkynnt að HSU myndi taka við rekstri Hraunbúða 1. apríl. Bæjarstjóri mun óska eftir að eiga fund með forstjóra HSU í dag fimmtudag, til að ræða framhaldið.

Bæjarráð ræddi einnig fréttaflutning af fundi Velferðarnefndar Alþingis frá 1. mars sl. Í fréttaflutningnum kom fram að svo virðist sé að fjármagn sem ætlað sé að nota í hjúkrunarheimili sé notað í óskyldan rekstur sveitarfélaga.

Leggja þunga áherslu á yfirfærslan gangi vel
Nú liggur fyrir að Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) muni taka við rekstri Hraunbúða. Bæjarráð mun leggja þunga áherslu á að yfirfærslan gangi vel fyrir sig og að þjónustan verði ekki skert og hagsmunir heimilsfólks og starfsfólks séu í forgrunni við yfirfærsluna.

Bæjarráð bókaði eftirfarandi. „Í fréttaflutningi af fundi velferðarnefndar Alþingis þann 1. mars 2021 kom fram að svo virðist sem að fjármagn, sem ætlað sé að nota í hjúkrunarheimili, sé notað í óskyldan rekstur sveitarfélaga. Má ætla að þau ummæli séu komin frá Sjúkratryggingum Íslands sem er vísað til í fréttinni sem er höfð eftir formanni nefndarinnar. Vegna þessa telur bæjarráð Vestmannaeyja rétt að frábiðja sér slík ummæli enda algjörlega fráleit og úr lausi lofti gripin. Engir fjármunir hafa verið færðir til í bókhaldi vegna þessa og allt það fjármagn sem hefur komið frá íslenska ríkinu hefur farið til reksturs Hraunbúða og svo verulega meira til eins og hefur ítrekað komið fram í fréttum. Hérna er einfaldlega verið að fara með rangt mál og fela vanmátt íslenska ríkisins og Sjúkratrygginga Íslands til þess að takast á við það verkefni að taka yfir rekstur hjúkrunarheimilanna eins og þeim ber skylda til.“

Mest lesið