Föstudaginn 5. Mars 2021 var undirritaður í húsnæði augnlæknastofu Sjónlags hf í Reykjavík samstarfssamningur milli HSU í Vestmannaeyjum og Sjónlags hf um rekstur augnlæknastofu í húsnæði HSU í Vestmannaeyjum. Þetta er stórt skref til að bæta aðgengi að heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Stjórnvöld komu að verkefninu með veglegum styrk út frá nýsköpunargildi og nútímavæddri augnlæknaþjónustu og með því skapast tækifæri á að minnka kostnað hins opinbera og kostnað landsbyggðafólks sem ekki þarf lengur að leita eftir slíkri þjónustu í Reykjavík. Augnlæknastofan í Vestmannaeyjum er mjög stórt verkefni og er heildarkostnaður á aðstöðu og tækjabúnaði upp á tæpar 35 milljónir króna.

Alþjóðahjálparsjóður Lions International LCFI kom með alls Kr. 12.263.000,00
Fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar í Vestmannaeyjum alls Kr. 12.242.000,00
Fjármála-og efnahagsráðuneyti, Heilbrigðisráðuneyti,
Atvinnu-og nýsköpunarráðuneyti veittu styrk til HSU í Vm. alls Kr. 9.950.000,00

Sigmar Georgsson og Óskar Pétur Friðriksson voru fulltrúar Lionsklúbbs Vestmannaeyja við athöfnunina sem fór fram í húsnæði Sjónlags hf í Reykjavík.
Frá Sjónlagi voru Jónmundur Gunnar Guðmundsson framkvæmdastjóri, Ólafur Már Björnsson augnlæknir og Óskar Jónsson augnlæknir. Frá Heilbrigðisstofnun Suðurland voru Díana Óskarsdóttir forstjóri HSU og Ari Sigurðsson framkvæmdastjóri fjármála hjá HSU

Fjármögnun er fullkláruð og læknaráð Sjónlags hf hafa valið samsetningu á tækjabúnaði sem hentar best fyrir augnlæknastofuna í Vestmannaeyjum. Þessi tækjabúnaður er af nýjustu og fullkomnustu gerð og samanstendur af augnsjá, tölvustýrðum sjónmæli/sjónsviðsmæli, augnbotnamyndavél/sneiðmyndavél til greiningar og rannsóknar á sjónhimnukvillumm gláku og hrörnunarsjúkdómun í augnbotnum og síðan eru ýmsir fylgihlutir s.s. smásjá, augnspeglar, skoðunarbekkur/stóll og tölvubúnaður til samskipta og greininga við stofuna í Reykjavík. Tækjabúnaðurinn er að fara í pöntun fyrir okkur Eyjamenn og er afgreiðslutími tækjanna áætlaður um 4 til 6 vikur.

Jónmundur Gunnar framkvæmdastjóri Sjónlags hf fór með okkur í skoðunarferð um húsnæði fyrirtækisins og skýrði út fyrir okkur aðstöðuna sem er stórglæsileg og fór yfir allt vinnuferlið á staðnum. Á þessum vinnustað er fjöldi starfsmanna og eru alls 9 augnlæknar starfandi þar, auk hjúkrunarfræðinga, sjóntækjafræðinga , sjúkraliða og skrifstofufólks.

Þetta skemmtilega verkefni hófst formlega þann 7. Október 2019, þegar Hjörtur Kristjánsson yfirlæknir kallaði okkur nokkra stjórnarmenn Lionsklúbbs Vestmannaeyja á sinn fund og kynnti verkefnið fyrir okkur og óskaði eftir aðstoð til að fara í fjáröflun til að fjármagna tækjakaup fyrir fullkomna augnlæknastofu sem yrði útbúin nútíma búnaði á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum. Hjörtur kvað mikla þörf á slíkri þjónustu í Eyjum og muni stórbæta lífskjör okkar Eyjamanna og spara auk þess mikil útgjöld og ferðalög. Við skoðuðum málið og kölluðum til fundar við okkur stjórn Kvenfélagsins Líknar sem tók hugmyndinni vel og lofaði okkur góðum stuðningi ef við færum í verkefnið. Við leituðum til aðalstjórnar Lions á Íslandi um aðkomu að málefninu og fengum strax mikla hjálp m.a. við umsókn um styrk til alþjóðahjálparsjóðs Lions og eins þurftum við að fá fjóra lionsklúbba á suðurlandi til að vera með okkur í umsókninni, þar sem hámarkstyrkur til hvers klúbbs í verkefni er um 3 milljónir íslenskra króna og með 5 klúbbum gætum við fengið úthlutað þeirri upphæð sem við stefndum að. Þann 20. maí 2019 fengum við jákvætt svar frá sjóðnum um aðkomu hans með helming kostnaðar á tækjabúnaði ef við Vestmannaeyingar gætum aflað sömu upphæðar á móti frá heimamönnum. Við lionsmenn heimsóttum fjölda stofnana og fyrirtækja í Vestmannaeyjum og skýrðum þeim frá þessu stóra verkefni og óskuðum eftir framlagi frá þeim sem LCFI sjóðurinn mundi síðan tvöfalda í upphæð og gekk þessi áætlun frábærlega í alla staði og á örfáum vikum náðum við að fullfjármagna verkefnið.

Verkefnið hefur hins vegar tekið langan tíma og stórar og krappar beygjur hafa tafið för og hinar og þessar hindranir dúkkað upp á ólíklegum stöðum. Og núna er komið grænt ljós og undirritun komin á samningablöðin og allir aðilar gríðalega ánægðir með niðurstöðuna og bíða spenntir eftir opnun nýju augnlæknastofunnar.
Miklar framkvæmdir eru innan hús hjá HSU í Vestmannaeyjum og er verið að leggja lokahönd á aðstöðu fyrir nýju röntgentækin sem verða sett upp kringum 15. mars n.k. og síðan er verið að færa aðalinngang á suðurhlið austurálmu og útbúa nýja biðstofu fyrir sjúklinga sjúkrahúsins.

Til gamans viljum við minnast þess að 1974 kom alþjóðahjálparsjóður Lions LCFI að opnum nýja Sjúkrahús Vestmannaeyja og kostaði allan innri búnað stofnunarinnar s.s, sjúkrarúm, allan tækjabúnað til lækninga, tækjabúnað í eldhús og búsáhöld, húsgögn, rúmföt, gardínur og margt fleira og var gjöfin talin vera að andvirði allt að 25 einbýlishúsa. Þetta var stærsta gjöf sem sjóðurinn hafði úthlutað þá frá því hann var stofnaður og nú 47 árum síðar njótum við hans aðstoðar.
LCFI alþjóðahjálparsjóður Lions var stofnaður árið 1968 og er viðurkennd alþjóðleg mannúðarsamtök og stærst á sviði sjónverndar. Sjóðurinn veitir að meðaltali 30 milljónum Bandaríkjadala á ári .

Til hamingju Vestmannaeyingar með þessar nýju umbætur og tækjakost.

Lionsklúbbur Vestmannaeyja
Sigmar Georgsson formaður verkefnanefndar L.V.
Óskar Pétur Friðriksson ljósmyndari