Hönnunarsjóður úthlutaði þann 5. mars 20 styrkjum til ólíkra verkefna á sviði hönnunar og arkitektúrs og 13 ferðastyrkjum til 10 verkefna. Að þessu sinni voru 23,5 milljónum úthlutað en alls bárust 150 umsóknir um rúmar 255 milljónir.

Á meðal þeirra sem hlutu styrk er Eyjamaðurinn og iðnhönnuðurinn Emilía Borgþórsdóttir. Hún hlýtur styrk upp á tvær milljónir króna í verkefni sem hún nefnir. „Fræ til stærri afreka – frumgerð og lokaafurð.“
Hugmyndin er að útbúa þátttökuverðlaun unnin úr lífrænum massa sem innihalda birkifræ. Þegar dáðst hefur verið að gripnum er hægt að gróðursetja hann svo upp spretti verðlaunagarður. Er hugmyndin að þetta ýtir undir hringrásarhagkerfið og kennir börnum á öllum aldri umhverfis- og skógarvernd

Annan Eyjamann má finna meðal styrkþega. En Svala Jónsdóttir er hluti af þriggja kvenna teymi á bakvið verkefnið „Vistbók – verkfæri fyrir sjálfbærari byggingariðnað.“ Hlutu þær styrk upp á eina og hálfa milljón króna. Verkefnið er nýsköpunarverkefni í íslenskum byggingariðnaði sem miðar að þróun á verkfæri fyrir sjálfbærari byggingariðnað. Vistbók mun auðvelda fagaðilum sem og húseigendum að velja umhverfisvottaðar byggingarvörur og utanumhald á byggingum í umhverfisvottunarferli.

Vistbók – verkfæri fyrir sjálfbærari byggingariðnað, Rósa Dögg Þorsteinsdóttir, Svala Jónsdóttir og Berglind Ómarsdóttir hlutu 1.500.000 kr. styrk úr Hönnunarsjóði

Nánar má lesa um önnur verkefni sem hlutu styrk á heimasíðu Hönnunarmiðstöðvar.

Hönnunarsjóður heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og er tekjustofn hans árlegt framlag sem Alþingi ákveður á fjárlögum. Í ár er framlag til sjóðsins 50 milljónir króna og fer Hönnunarmiðstöð Íslands ehf. með umsýslu sjóðsins.
Hlutverk hönnunarsjóðs er að efla þekkingu og atvinnu- og verðmætasköpun á sviði hönnunar og arkitektúrs með fjárhagslegum stuðningi og ráðgjöf. Sjóðurinn styrkir jafnframt kynningar- og markaðsstarf erlendis, sem stuðlar að auknum útflutningi íslenskrar hönnunar.