Aðalsafnaðarfundur Ofanleitissóknar og Kirkjugarðs Vestmannaeyja fór fram að lokinni messu síðast liðinn sunnudag. Andrea Atladóttir er formaður sóknarnefndar en auk hennar sitja í stjórn: Stefán Jónasson – varaformaður, Helga Björk Ólafsdóttir – gjaldkeri, Ingibjörg Jónsdóttir – ritari, Steingrímur Svavarsson, Sigríður Kristjánsdóttir og Vera Björk Einarsdóttir. Auk þeirra eru varamenn: Aðalheiður Pétursdóttir, Arnar Sigurmundsson, Hörður Orri Grettisson, Kolbrún Sól Ingólfsdóttir, Marinó Sigursteinsson, Svanhildur Sigurðardóttir og Þjóðhildur Þórðardóttir. Bragi Ólafsson og Sindri Viðarsson létu af stjórnarsetu á fundinum.

Andrea segir Covid hafa sett mark sitt á starf síðasta árs eins og víðast hvar annars staðar. En fundir sóknarnefndarinnar urðu einungis fjórir á árinu en auk þess fundaði framkvæmdanefnd sérstaklega og leysti úr málum með tölvupóstsamskiptum þess á milli.

Pláss til tveggja ára í garðinum
Eitt af því sem til umræðu var á fundinum var fyrirhuguð stækkun kirkjugarðsins. Andrea segir umræðurnar hafa verið góðar og að lokum ákveðið að velja að fara þá leið að stækka garðinn beint til austurs en tillagan var unnin af Páli Zophoníassyni. „Staðan er einfaldlega þannig í dag að við eigum í mesta lagi pláss í garðinum til tveggja ára ef graftökur verða með svipuðum hætti og verið hefur. Með þessari leið erum við að kaupa okkur pláss sem ætti að endast í fimm til sex ár til viðbótar.“

Nánar er rætt við Andreu og fjallað um þessi mál í nýjasta tölublaði Eyjafrétta