Bæjarstjóri fór á fundi bæjarráðs í gær yfir drög að minnisblaði sem framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs hefur tekið saman og sendi þann 15. mars sl. Í drögunum eru lagðar fram tillögur að uppsetningu varaaflsstöðvar í Vestmannaeyjum, greinargerð um kostnað og tillögur að fjármögnun. Skipaður var starfshópur til þess að kanna möguleika á uppsetningu varaaflsstöðvar í Vestmannaeyjum og hafa viðræður átt sér stað milli hópsins og fulltrúa Landsnets um ólíka kosti í stöðunni og greindi bæjarstjóri frá þeim fundum.

Bæjarráð telur í niðustöðu sinni rétt að undirstrika að ábyrgð á að tryggja varaafl í Vestmannaeyjum liggur hjá ríkinu og Landsneti. Í ljósi þess hve stutt á veg áform um uppbyggingu varaafls í Vestmannaeyjum eru komin hafa Vestmannaeyjabær og aðrir hagsmunaaðilar óskað eftir samtali við Landsnet um að flýta uppbyggingunni og jafnvel að eiga samstarf um hana, ef það leiðir til þess að uppbyggingaráformum verði flýtt. Bæjarráð felur bæjarstjóra að fylgja málinu eftir með starfshópnum.