Það er tímanna tákna að þeim fækkar Eyjamönnunum sem kenndir eru við æskuheimili sín. Þórður á Skansinum er einn þeirra. Í huga lítils peyja í Grænuhlíðinni var ljómi yfir vörubílstjóranum sem bjó á Bakkastígnum. Hann átti snemma kranabíl og var á undan sinni samtíð og svo var hann líkari stórstjörnunum sem ég sá í þrjú bíó. Svo flottur með  há kollvik, síða barta og skeggið á efri vörinni persónueinkenni Skansarans. Eðlislægt glottið og hlýleg framkoman gerði það að verkum að gullfyllingin í framtönninni var áberandi. Ég var bara viss um að eingöngu kvikmyndastjörnur væru með svona útlit. Það var því spennandi að fá að sitja í vörubílnum hjá Þórði á Skansinum þegar hann var að vinna í kringum bátana sem pabbi var með á þessum árum. Leiðir okkar lágu síðan saman þegar ég var verkstjóri hjá Viðlagasjóði við hreinsunina í Eyjum eftir gos og þá var ég gröfumaður hjá honum og Arnari í Ási. Þeir áttu saman fyrirtækið Vinnuvélar og við unnum að hitaveituframkvæmdum í Eyjum. Það var skemmtilegur tími en það þurfti stundum að taka í rassgatið á gröfumanninum sem sleit nær allar vatnslagnir sem lágu ómerktar stystu leið milli húsa. Ég viðurkenni það nú fyrir góðum vin að ég skemmti mér töluvert yfir því brasi. Ég var kannski að grafa í mjúkum jarðvegi þegar ég fann nett höggið og svo stóð vatnsbunan langt upp í loftið. Þórður og Arnar komu þá hlaupandi með fittings og rörtöng, bölvuðu í hljóði en stungu sér óhikað í skurðinn fullan af vatni og græjuðu rörið. Vinnan var skóli hjá mönnum með verksvit og þekkingu. Seinna þegar ég fór í diplómanám í mannauðsstjórnun í HR kom í ljós a ég var löngu búinn að læra þetta allt saman. Í sveitinni, á sjónum, í Net hf, hjá Stebba Run, Arnari í Ási og Þórði á Skansinum. Það hafði bara engum dottið í hug að útskrifa mig. Þórður og hans líkir færðu Ísland inn í nútíman með útsjónarsemi, dugnaði og áræði. Í dag fengju þeir hvergi vinnu því þeir áttu engin prófskýrteini sem hægt er að ramma inn og setja upp á vegg. En ómetanleg reynslan og þekkingin er hvergi inn römmuð til skrauts á skrifstofum sem eru fullar af reynslulausu fólki með prófskýteini. Fyrstu skref Þórðar í vinnuna voru niður Skansinn í Hraðfrystistöðina þar sem hann vann hjá Einari ríka. Það þurfti útsjónarsemi svo líkaminn þyldi álagið og þar unnu allir í haginn fyrir hvern annan. Einfalt atriði eins og að gogga fisk á færiband hafði líka sitt lagið. Þórður kom eitt sinn í aðgerð til mín og þar var ungur maður að gogga fisk á bandið. Að meðfæddri kurteisi Þórðar sagði hann við strákinn. „Þú átt alltaf að láta hausinn á fiskinum snúa svona, því þá þarf Ási ekki að snúa hverjum þungum þorski þegar hann fer inn í´ann“. Þegar Þórður og vinnufélagar hans í Hraðinu gerðu að hundruðum tonna, 17 klst. á dag 7  daga vikunnar, vertíðina á enda þá skipti þetta sköpum að létta öllum vinnuna því allt var gert á höndum. Þess vegna héldu þeir út, vertíð eftir vertíð með því að hugsa hvert endurtekið handtak til að létta öllum störfin. Við kölluðum hann Skansarann, brosmilda félagann. Ég man aldrei eftir því að hann skipti skapi þó oft væri mikið álag, langur vinnudagur og pressa í gagni. Og alltaf mætti hann ef við gerðum okkur glaðan dag, hann hafði gaman af góðum vinnustaðaanda og þeim móral sem fylgdi slíku spjalli. Skansinn mun standa en Skansarinn er fallinn, glottið og yfirvararskeggið heyrir nú sögunni til. En minningin um góðan mann lifir. Votta Hrönn og fjölskyldu hjartans samúð.

Ásmundur Friðriksson