Rekstur Vinnslustöðvarinnar hf. skilaði 800 milljóna króna rekstrarhagnaði (5,4 milljónum evra) á árinu 2020 á meðalgengi þess árs. Það er liðlega 40% minni hagnaður en á fyrra ári.

Framlegð samstæðunnar (EBITDA) nam 2,3 milljörðum króna (14,9 milljónum evra) og dróst saman um 29%.

Þetta kom fram á aðalfundi  VSV í Vestmannaeyjum á fimmtudaginn var, 25. mars. Tilhögun fundarins var í samræmi við hertar sóttvarnir og samkomutakmarkanir.  Einungis átta manns voru á vettvangi í Eyjum en aðrir hluthafar tóku þátt í fundarstörfum í gegnum fjarfundarbúnað.

Guðmundur Örn Gunnarsson, stjórnarformaður félagsins, orðaði það svo í skýrslu stjórnar að rekstrarafkoman 2020 væri viðunandi í ljósi aðstæðna:

„Útkoman er viss varnarsigur á tímum þegar margt var mótdrægt og óvenjulega snúið við að eiga. Markmiðið var að halda sjó og það tókst.“

Engin loðna var veidd í fyrra og humarveiðar brugðust sömuleiðis. Mest áhrif á reksturinn hafði samt veirufaraldurinn heima og heiman. Veitingahús og mötuneyti voru lengst af lokuð á hefðbundnum markaðssvæðum, atvinnuleysi jókst þar og miklar efnahagsþrengingar með fallandi kaupmætti almennings settu víða strik í reikninginn.

Mikil saltfisksala en lækkandi verð

Vinnslustöðin eignaðist saltfiskframleiðslufyrirtækið Grupeixe í Portúgal á árinu 2019. Árið 2020 var því fyrsta heila almanaksár rekstrarins. Saltfisksala VSV jókst mikið á Portúgalsmarkaði en verðið lækkaði umtalsvert sem rekja má beint til áhrifa og afleiðinga veirufaraldursins. Stjórnarformaðurinn vék að þessu í skýrslu stjórnar og sagði:

„Við fylgjum Portúgölum í niðursveiflunni og þrengingum þeirra í fullvissu um að þegar efnahagslíf þeirra nái sér á strik á ný muni samfélag þeirra hrökkva í fyrri skorður og saltfiskverðið hækka. Portúgalir gleyma því nefnilega ekki, þótt á móti blási í augnablikinu, hverjir framleiða og selja besta saltfiskinn sem þeim býðst.“

Arðgreiðslur

Aðalfundur Vinnslustöðvarinnar samþykkti að greiða hluthöfum 5 milljón evrur í arð, jafnvirði um 750 milljóna króna. Stjórn félagins var jafnframt heimilað að lækka arðinn í 3 milljón evrur þegar  hann verður greiddur út í október ef aðstæður þykja kalla á slíkt.

Á súluritinu sjást arðgreiðslur sem hlutfall af markaðsvirði hlutafjár félagsins frá 2003 til 2021. Þetta hlutfall nú er 2,4%.

Óbreytt stjórn

Stjórn Vinnslustöðvarinnar var endurkjörin og varastjórn sömuleiðis.

Í aðalstjórn eru Einar Þór Sverrisson, Guðmunda Áslaug Bjarnadóttir, Guðmundur Örn Gunnarsson, Rut Haraldsdóttir og Sigurjón Rúnar Rafnsson.

Í varastjórn eru Eyjólfur Guðjónsson, Herdís Ásu Sæmundardóttir og Sigurhanna Friðþórsdóttir.

 Myndirnar þar fyrir neðan voru teknar daginn fyrr aðalfund. Þá mættu nokkrir hluthafar í Vinnslustöðina og skoðuðu glæsilega viðbyggingu sem tekin var í notkun á dögunum. Þar er skrifstofuhald félagsins, matsalur, búningsklefar og nýr aðalinngangur.

 

SKL jól