Mikilvægi hreyfingar

Hildur Sólveig Sigurðardóttir, sjúkraþjálfari

Í því ástandi sem skekur samfélagið hefur gildi og mikilvægi hreyfingar sjaldan verið jafn augljóst. Á tímum þar sem fjölmennar gleðistundir, veislur og samkomur virðast fjarlægur draumur er mikilvægt að hlúa m.a. að andlegri heilsu til að draga úr áhrifum félagslegrar einangrunar á almenna líðan.

Styrkir ónæmiskerfið
Fjölmargir þættir hafa áhrif á andlega heilsu og er líkamsrækt og almenn hreyfing stór þáttur í geðrækt. Þar sem hefðbundið íþróttastarf liggur niðri, líkamsræktarstöðvar og sundstaðir eru lokaðir hefur sjaldan verið jafn mikilvægt að fólk sinni hreyfingu í frítímanum. Regluleg hreyfing eflir ekki síður líkamlega heilsu og m.a ónæmiskerfi líkamans sem styrkir varnir hans gegn óvelkomnum boðflennum á borð við veirur, sýkingar og áhrifa streitu ásamt því að vera þekkt meðferðarúrræði við ýmsum sjúkdómum á borð við hjarta- og æðasjúkdóma, kvíða og þunglyndi og vinnur gegn neikvæðum áhrifum öldrunar.

Göngur ódýrar og náttúran eykur vellíðun
Þrátt fyrir lokanir heilsueflingastöðva í sóttvarnarskyni eru möguleikar til hreyfingar nokkuð fjölbreyttir í Vestmannaeyjum. Göngur eru ódýr og einfaldur möguleiki þar sem góðir skór og klæðnaður eftir veðri er það eina sem þarf. Stórtbrotin náttúran sem mætir manni á hverju götuhorni gefur svo heilanum ákveðna gleðisprautu en það að búa í návist við græn svæði hefur verið vísindalega sannað að dragi úr streitu og líkum á hjarta- og æðasjúkdómum.

Heilsuefling möguleg víða
Búið er að koma upp líkamsræktartækjum utandyra á lóð Barnaskólans og fyrir utan inngang að Íþróttamiðstöðinni sem ætluð er til heilsueflingar fyrir almenning og er kjörið að grípa í þau styrktartæki þegar veður leyfir en mikilvægt að hafa spritt eða hanska með í för. Fjallgöngur eru góður kostur og góðar gönguleiðir fyrir byrjendur t.d. Upp á Eldfell, Sæfell og í kringum Stórhöfða. Fyrir lengra komna er gönguleið upp á Dalfjall, Hánna og Klifið góður kostur og fyrir þá sem eru í góðu formi og láta lofthræðslu ekki bíta sig þá eru Heimaklettur og Blátindur vinsælar gönguleiðir en ráðlegt að fara ekki án leiðsagnar amk. í fyrsta skiptið

Heimaþjálfun býðst víða
Fjölmargir einkaþjálfarar hafa gripið til þess ráðs í faraldrinum að bjóða upp á fjarþjálfun, bæði hópatíma og einkaþjálfun í gegnum netið og krefst það yfirleitt lágmarksútbúnaðar á borð við æfingadýnu, ketilbjöllu, sippubands, handlóða og æfingateygju. Hins vegar er afar auðvelt að finna léttar og þægilegar æfingar á netinu með einfaldri leit en muna að alltaf er best að leita faglegrar ráðgjafar sérstaklega ef maður hefur enga reynslu af fyrri þjálfun.

Stuðningur frá vini eða smáforritum
Við þekkjum það öll að nóg er til af afsökunum fyrir því að hreyfa sig ekki; ég hef ekki tíma, það er svo vont veður, það er svo stutt í kvöldmatinn, ég er svo þreytt/ur eftir vinnu, ég á engin æfingaföt. Það eru í raun engar takmarkanir fyrir því hvað getur staðið fyrir því að fara af stað en erfiðast verður alltaf að byrja. Það getur reynst áhrifaríkt og aukið á ánægjuna við hreyfinguna að finna æfingafélaga, sem er þá jafnvel hægt að spjalla við á göngu og geta þá æfingafélagar verið sameiginleg hvatning til þess að mæta. Gefa sér ákveðinn reglulegan tíma og þá er orðið erfiðara að svíkjast um því ekki viltu bregðast félaganum. Eins eru mörg snjallforrit sem geta verið stuðningu við hreyfingu á borð við Strava, RunKeeper ofl. Og nýjustu snjallúr eru gjarnan með heilsuhluta þar sem hægt er að fylgjast vel með virkni. Þá er hægt að skoða og skrá árangur vikunnar eða mánaðarins og reyna að bæta sig jafnt og þétt í hverjum mánuði. Á heilsugæslu býðst svo úrræðið Hreyfiseðill fyrir þá sem ná ekki að halda hreyfingunni sjálfir í rútínunni og þurfa meiri stuðning.

Ekki gera ekki neitt
Á hverjum degi munu alltaf gefast tækifæri til að hreyfa okkur meira en við gerðum í gær, taka stigana frekar en lyftuna, leggja 10 mínútum fyrr af stað og ganga í vinnu eða skóla, leggja bílnum lengra frá inngangnum, leika úti við börnin osfrv. Regluleg hreyfing hefur jákvæð áhrif á þyngdarstjórnun, dregur úr líkum á eða minnkar áhrif frá hjarta- og æðasjúkdómum, bætir stjórnun á blóðsykri og insúlíni, bætir andlega vellíðan, bætir svefn, eykur lífslíkur, bætir kynheilsu, dregur úr líkum á ákveðnum krabbameinum, styrkir bein og vöðva, eykur hugræna getu og dregur úr fallhættu eftir því sem við eldumst. Ráðlögð hreyfing fyrir fullorðna er minnst 30 mínútur daglega af meðalákefð sem vel má skipta niður í t.d. 2×15 mínútur. Hvað sem þú gerir, ekki gera ekki neitt.

Hildur Sólveig Sigurðardóttir
Hreyfistjóri og sjúkraþjálfari
Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Vestmannaeyjum .

SKL jól