Sem kunnugt er hefur smitum á landsvísu fjölgað umtalsvert síðustu daga. Sem stendur er enginn í einangrun í Vestmannaeyjum en tveir einstaklingar eru í sóttkví og sjö í skimunarsóttkví.
Afar mikilvægt er að einstaklingar sem eru í sóttkví og skimunarsóttkví fylgi reglum þar að lútandi í einu og öllu. Nálgast má reglurnar hér https://www.covid.is/flokkar/sottkvi.
Þá eru allir sem finna fyrir minnstu flensueinkennum hvattir til að fara rakleitt í skimun og halda sig til hlés þar til niðurstaða úr skimun liggur fyrir. Á HSU í Vestmannaeyjum, Sólhlíð 10, eru tekin sýni alla virka daga kl. 13:00-13:15. Best er að skrá sig í sýnatöku gegnum vefsíðu Heilsuveru.is, en einnig má hafa samband við heilsugæslu (432 2500). Mæting í skimun er við inngang á 1. hæð, aðkoma frá Helgafellsbraut.
Í undantekningartilfellum eru tekin sýni um helgar og frídaga, en það er metið í hverju tilviki fyrir sig. Í þeim tilfellum skal hafa samband við læknavaktina, 1700, sem vísar áfram á vaktlækni ef ástæða þykir til.
Aðgerðastjórn vill brýna alla íbúa í Vestmannaeyjum að gæta áfram vel að einstaklingsbundnum smitvörnum og almennum sóttvörnum, virða tveggja metra regluna, spritta hendur og nota andlitsgrímu. Þetta á einnig við um þá einstaklinga sem hafa fengið bólusetningu.