Á 1545. fundi Bæjarstjórnar Vestmannaeyja var staðfestur vilji Fjölskyldu- og tómstundaráðs frá 25. mars 2019 að stofna starfshóp, með aðkomu ÍBV Héraðssambands, til að ræða framtíðarsýn í uppbyggingu, rekstri og skipulagi íþróttamála í Vestmannaeyjum.
Tilgangur starfshópsins var að koma með framtíðarsýn hvað varðar rekstur, uppbyggingu og skipulag í íþróttamálum til næstu 10 ára. Markmið starfshópsins var að leggja fram fyrir fjölskyldu- og tómstundaráð tillögur um forgangsröðun verkefna, tímasetja þau og kostnaðarmeta. Það er svo hlutverk fjölskyldu- og tómstundaráðs í framhaldinu að vinna með niðurstöður og leggja fyrir bæjarstjórn tillögu um framtíðarsýn í íþróttamálum til lengri tíma.

Gefa svigrúm til athugasemda
Fjölskyldu- og tómstundaráð ræddi málið á fundi sínum í vikunni og þakkaði starfshópnum fyrir gott starf. Þar sem langt er liðið frá upphafi vinnunnar og vegna aðstæðna í samfélaginu felur ráðið framkvæmdastjóra og Íþrótta- og tómstunda- og æskulýðsfulltrúa að fara yfir breytingar sem hafa orðið á þessu tímabili og gefa íþróttafélögum tækifæri á að koma með athugasemdir. Ráðið tekur svo afstöðu þegar þeirri vinnu er lokið.

Engar fundargerðir
Fulltrúar D lista í ráðinu bókuðu þá eftir farandi. “Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að farið sé í samantekt sem þessa og lýsa ánægju sinni með það öfluga íþróttastarf sem Vestmannaeyjar búa yfir. Við gerum þó athugasemd við að starfshópurinn sem fór með þetta verkefni hafi ekki haldið fundargerðir á fundum sínum. Það er hagur allra að hægt sé að skjalfesta mismunandi sýnir á verkefnin með bókunum og hefur fulltrúi okkar í hópnum gert athugasemdir við að það hafi ekki verið mögulegt.”

Því var svarað með bókun frá fulltrúum E og H lista. “Viðkomandi hefði getið bókað í lokaorðum skýrslunnar. Hann samþykkti skýrsluna án athugasemda.”