Hljóðbók.is hefur gefið út minningar Sigga á Háeyri frá gosinu 1973. Sigurður upplifði ásamt fjölskyldu sinni að missa heimili sitt í gosinu eins og svo fjölmargir aðrir Eyjamenn. Bókin segir frá gosnóttinni, flóttanum til meginlandsins og því risavaxna björgunarstarfi sem átti sér stað. Lesandinn fær einstaka innsýn í lífið í Eyjum, hvernig fólk sýndi ótrúleg viðbrögð, stillingu og æðruleysi við afar sérstæðar aðstæður á miklum umbrota- og óvissutímum.

Þarna er einnig ítarleg frásögn af björgunarstörfum og hvernig björgunarmenn lögðu nótt við dag að bjarga því sem bjargað varð. Í bókinni er dregin upp raunsæ og mannleg mynd af gosinu. Á milli er sagt frá ýmsu skemmtilegu sem gerðist í þessari orrahríð. Hann lýsir einnig því þegar mörg hús fóru undir hraun. Þá segir hann frá “eldmessunni” í Landakirkju sem séra Þorsteinn Lúter Jónsson hélt 22. mars en þá hljóp hraunflóðið fram og fjöldi húsa eyðilagðist.

Frásögnin er á köflum mögnuð, tilfinninganæm og afar sérstök. Hljóðbókin er hljóðskreytt með ýmsum hljóðum frá gostímanum. Guðni Einarsson les og Gísli Helgason hljóðritaði. Þarna koma upp á yfirborðið hljóðritanir sem hvergi hafa heyrst frá því að gosi lauk.
Undir hraun er nú komin á Storytel og er þar gott innlegg í þá mögnuðu sögu sem er tengd Vestmannaeyjum.