Eyjatónleikar fara fram í Eldborgarsal Hörpu með óhefðbundnu sniði á morgun. “Æfingin í gær í Hörpu gekk alveg meiriháttar vel enda allir í einstaklega góðu skapi.” sagði Bjarni Ólafur Guðmundsson í samtali við Eyjafréttir. “Kannski ekki skrýtið, því listamennirnir eru hrikalega spenntir að komast aftur á svið og skemmta landanum.  Það var svakalega flot stemning í hópnum og um talað hvað öll þessi frábæru lög koma manni í mikið sumarskap og Þjóðhátíðarskap. Ekki missa af þessum sannkölluðu Sumar-Þjóðhátíðartónleikum í beinu streymi á laugardagskvöldið klukkan 20.00. Við hvetjum alla til að kaupa sér miða í tíma, því álagið í miðasölunni eykst stöðugt eftir því sem líður nær tónleikunum og þá verður erfiðara að ná inn til að fá aðstoð, ef hana þarf. En allar upplýsingar og miðasala er á harpa.is.

Úrval Eyjalaga og úrval laga frá listafólkinu sjálfu.
Á tónleikunum verða fluttar margar perlur íslenskrar dægurtónlistar af hreint frábærum listamönnum. Jón Jónsson, Friðrik Dór, Ingó Veðurguð, Sigga Beinteins, Matti Matt, Katrín Halldóra og Alexander Jarl munu sjá um sönginn ásamt Kristjáni Gísla og Ölmu Rut og Jón Ólafsson stýrir stórhljómsveitinni sem sér um undirleikinn. Kynnir verður enginn annar en Logi Bergmann.