Hún var óneitanlega sérstök stemmningin í Silfurbergi í Hörpu á laugardagskvöld. Þar fóru fram tíundu Eyjatónleikar í Hörpu en þó með mun lágstemmdara sniði en áður. Hún var þó ekkert síðri en venjulega eftirvæntingin í andlitum þeirra fáu útvöldu gesta sem hlotið höfðu tónleikasæti fyrir náð og miskunn sóttvarnaryfirvalda. Það var líka áþreifanlegt þakklætið og gleðin sem tónlistarmennirnir á sviðinu gáfu af sér og hverjum manni ljóst að þau höfðu saknað þess að koma fram fyrir áhorfendur í sal. Listamennirnir fluttu hver á fætur öðrum vel valin Eyjalög heim í stofur landsmanna í bland við eigin smelli sem var vel til fundin og skemmtileg tilbreyting á þessum annars íhaldssama viðburði sem Eyjatónleikarnir okkar eru.

Tónleikarnir í gærkvöldi voru samt sem áður ekkert síður vestmanneyskir en góð skóbót og reiknar sá sem þetta ritar fastlega með að rétt eins og skóbótin verði þeir ekkert síðri dagana eftir. En hægt er að kaupa aðgang að tónleikunum í Sjónvarpi Símans og Sjónvarpi Vodafone frá og með deginum í dag og næstu vikur. Óskar Pétur lét sig ekki vanta á svæðið frekar en venjulega og tók meðfylgjandi myndir.