Verð íslenskra sjávarafurða mælt í erlendri mynt lækkaði um 1,9% á fyrsta fjórðungi ársins borið saman við fjórðunginn á undan. Þetta er fjórða skiptið í röð sem verð sjávarafurða lækkar milli samliggjandi fjórðunga.

Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. Þar segir ennfremur að verð sjávarafurða náði hámarki á fyrsta fjórðungi síðasta árs, eða rétt áður en faraldurinn skall á af fullum þunga. Síðan hefur verðið lækkað um tæplega 9%.

Krónan hjálpar
„Það sem hefur unnið með tekjustreymi íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja á þessu tímabili er að krónan var 7,3% veikari á fyrsta fjórðungi í ár en á sama tímabili í fyrra. Samanlögð áhrif veikingar krónunnar og lækkunar afurðaverðs milli þessara tímabila á tekjur sjávarútvegsins eru þó neikvæð um 2,1%,“ segir í greiningunni.

Lækkunarhrinan hófst þegar faraldurinn braust út eða á öðrum fjórðungi síðasta árs. Þá lækkaði verðið töluvert mikið, eða um 5,2%, og má rekja þá lækkun til þeirra aðstæðna sem komu upp vegna faraldursins, t.d. þrýstings kaupenda á verðlækkanir. Lækkunin á þeim fjórðungi var sú mesta í mælingum Hagstofunnar en tölur hennar ná aftur til ársins 2010.

Næstmesta lækkunin var á fjórða ársfjórðungi 2012 eða 5%. Síðan á öðrum fjórðungi síðasta árs hafa lækkanirnar verið töluvert minni og hafa legið á bilinu 1,4-1,9%. Lækkanir síðustu fjórðunga skýrast þó ýmist af lækkun á annars vegar botnfiski og hins vegar uppsjávarfiski. Á öðrum fjórðungi á síðasta ári var lækkunin mest afdráttarlaus en þá lækkaði verð bæði á botnfiski og uppsjávarfiski. Á síðustu fjórðungum hefur það hins vegar verið þannig að ef verð á uppsjávarfiski hefur hækkað hefur verð á botnfiski lækkað og svo öfugt.