Frá og með deginum í dag, 2. júní, tekur sumaráætlun Icelandair til Vestmannaeyja gildi en samkvæmt henni verður flogið fjórum sinnum í viku, tvisvar á dag – morgunflug og kvöldflug.  Þetta er stór áfangi í innanlandsflugi Icelandair en síðast flaug Icelandair til Vestmannaeyja í áætlunarflugi yfir sumartímann árið 2010. Í vetur gerði Samgönguráðuneytið samning við Icelandair um flug tvisvar í viku til Vestmannaeyja en sá samningur rann út um sl. mánaðamót. Icelandair mun bjóða hagstæð fargjöld til og frá Eyjum í sumar, en einnig verður hægt að kaupa flug og hótel. 

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group
„Vestmannaeyjar eru spennandi viðbót við áfangastaði Icelandair. Við sjáum mikil tækifæri í  Vestmannaeyjum sem áfangastað fyrir innlenda og erlenda ferðamenn en í kjölfar samþættingar Air Iceland Connect og Icelandair eru áfangastaðir okkar um allt land orðnir hluti af markaðsstarfi okkar alþjóðlega undir vörumerki Icelandair og tengdir inn í leiðakerfi okkar í Evrópu og Norður Ameríku. Við bindum vonir við að þetta verði lyftistöng fyrir áfangastaði okkar innanlands og eigi eftir fjölga erlendum ferðamönnum í innanlandsflugi og þar með skila sér til allra okkar viðskiptavina í aukinni tíðni og betri þjónustu.“