Birgir Þórarinsson þingmaður Miðflokksins sækist eftir 1. sæti á framboðslista flokksins í Suðurkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar. Ákveðið var á fundi stjórnar kjördæmafélagsins að viðhafa uppstillingu.

Í tilkynningu sem Birgir sendir frá sér kemur fram að hann er einn af stofnendum Miðflokksins og hefur verið oddviti flokksins í Suðurkjördæmi frá 2017. Hann er fulltrúi flokksins í fjárlaganefnd Alþingis og hefur flutt fjölmargar breytingartillögur við fjárlög á kjörtímabilinu. Má þar nefna auknar fjárveitingar til: heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, löggæslumála og rannsókna á skipulagðri glæpastarfsemi, hjúkrunarheimila, stuðningsstarfa öryrkja, geðheilbrigðismála, heimaþjónustu aldraða, tvöföldun Reykjanesbrautar og átaks til að draga úr atvinnuleysi á Suðurnesjum.  Birgir leggur áherslu á ráðdeildarsemi í ríkisrekstri, hagræðingu innan ráðuneyta, sem hafa vaxið hratt í tíð núverandi ríkistjórnar og árangursmiðaða fjárlagagerð, þannig að almenningur geti treyst því að almannafé sé nýtt með skynsömum hætti. Í utanríkismálum telur hann Ísland eiga vannýtt tækifæri á sviði viðskiptasamninga og fríverslunar meðal annars með sjávarafurðir. Auk þess hafi Ísland allt til að bera til að koma að friðarumleitunum á alþjóðavettvangi. Birgir hefur verið ötull talsmaður landbúnaðarins. Hann hefur látið sig sérstaklega varða grunngildi samfélagsins, sem eiga undir högg að sækja. Birgir er guðfræðingur frá Háskóla Íslands og með meistarapróf í alþjóðasamskiptum og utanríkisþjónustu frá Bandaríkjunum. Þess má geta að móðurfjölskylda hans er frá Nýjahúsi í Vestmannaeyjum.

Birgir segir að staða Miðflokksins í Suðurkjördæmi sé góð og hafi verið svo allt kjörtímabilið, tækifærin séu mikil. Birgir er bjartsýnn á gott gengi flokksins í komandi kosningum. Flokkurinn hafi haldið uppi öflugri stjórnarandstöðu á þingi og málefnastaðan sé sterk. Miðflokkurinn er flokkur breytinga fyrir fólk og fyrirtæki. Flokkur sem treysta má að standi við orð sín.