Kveikjum neistann er viðamikið rannsóknar- og þróunarverkefni við GRV til 10 ára og hefst formlega næsta haust í 1. bekk. Verkefnið kallar á breyttar áherslur í kennslu og samhliða því mun skipulag á skóladegi nemenda breytast nokkuð. Samningur um verkefnið var undirritaður þann 1. júní sl. en það er styrkt af Vestmannaeyjabæ, Háskóla Íslands, Samtökum atvinnulífsins og mennta- og menntamálaráðuneytinu.

Þótt verkefnið hefjist formlega í haust er undirbúningur verkefnisins þegar hafinn í skólanum. Teymi hafa verið mynduð í GRV um helstu áhersluþætti verkefnisins sem eru lestur, stærðfræði, náttúrufræði, hreyfing og hugarfar. Stjórnendur og kennarar í umræddum teymum hafa unnið að undirbúningi í nokkurn tíma, ásamt væntanlegum kennurum í 1. bekk, og notið stuðnings og ráðgjafar frá fræðimönnum HÍ og öðrum reynslumiklum aðilum úr skólasamfélaginu. Meðal þeirra eru Hermundur Sigurmundsson, prófessor við HÍ og NTNU, Kristín Jónsdóttir, dósent í kennslufræði við HÍ, Svava Þ. Hjaltalín, sérkennari við Giljaskóla, Jón P. Zimsen, skólastjóri Melaskóla og sérfræðingur í námsmati, Svava Pétursdóttir, lektor við HÍ , Ársæll Árnason, prófessor við HÍ, Viðar Halldórsson, prófessor við HÍ og Bergsveinn Ólafsson, doktorsnemi og höfundur bókarinnar Tíu skref í átt að innihaldsríku lífi. Að auki koma erlendir sérfræðingar frá Finnlandi, Noregi og Bandaríkjunum að ráðgjöf.

Stafsdagur GRV þann 7. júní sl. var nýttur fyrir verkefnið og mættu nokkrir ráðgjafanna til Eyja til að taka þátt í deginum með kennurum og stjórnendum. Dagurinn hófst með áhugaverðum og skemmtilegum fræðsluerindum frá gestunum og í framhaldi hittu þeir teymin á fundum þar sem staðan var rædd og línur lagðar fyrir framhaldið.

Gestirnir skoðuðu síðan Bókasafn Vestmannaeyja sem er mikilvægur samstarfaaðili skólans og enn frekar þegar umrætt verkefni fer af stað. Þeir fengu kynningu á safninu og starfi þess sem snýr að börnum og ungmennum, þ.m.t. sumarlestrinum sem er nýhafinn.

Kveikjum neistann er stórt og mikið verkefni sem markar tímamót í þróun skólastarfs á Íslandi og rannsóknar á því. Það byggir á samvinnu kennara, stjórnenda, nemenda og foreldra og þá er sá stuðningur sem fæst frá þessu öfluga fræða- og fagfólki ómetanlegur þáttur í öllu ferlinu.

Hópurinn mun mæta til Eyja aftur á haustdögum og þá bætast fleiri við í hópinn. Ætlunin er að taka annan vinnudag með kennurum og stjórnendum og, eins og fyrr segir, hefja verkefnið formlega.