Á 349. fundi umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja þann 28. júní s.l. var tekið til afgreiðslu eftir formlega auglýsingu nýtt deiliskipulag athafnasvæðis austan við norðurenda flugbrautarinnar. Skipulagið var unnið af Alta verkfræðiþjónustu og hafði lokið formlegri kynningu í samræmi við skipulagslög. Frestur til þess að gera athugasemdir var til 12. júní s.l.

Ein athugasemd barst að undanskildum umsögnum sérstakra umsagnaraðila. Athugasemdin kom frá eigendum Dalabúsins, Hallgrími Rögnvaldssyni og Guðjóni Rögnvaldssyni. En Dalabúið er staðsett austan Dalavegar rétt við hið nýja deiliskipulagða athafnasvæðis.

Í athugasemdinni kemur fram að undirritaðir mótmæli kynntri tillögu bæjarins þar sem eigendur Dalabúsins hafi ætlað sér með tíð og tíma að reyna þróa svæðið frekar fyrir ferðaþjónustu. “Undanfarið höfum við staðið í viðræðum við aðila sem sýnt hefur áhuga á að kaupa húsið með einmitt þetta í huga. Verði af þessum framkvæmdum mun það koma illa niður á okkur fjárhagslega.” Í niðurlagi athugasemda er þess óskað að bærinn komi til viðræðna við bréfritara með það í huga að sveitarfélagið kaupi Dalabúið, “… og geti því ráðstafað því [húsinu] að vild.”

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja samþykkti tillögu hins nýja skipulags og fól skipulagsfulltrúa að svara innsendum athugasemdum. Bæjarstjórn mun síðar staðfesta skipulagið.

Athugasemd frá eigendum Dalabúsins.

Uppdráttur deiliskipulags fyrir athafnasvæði AT-3 við Flugvöll.