Makrílvinnsla hefst að líkindum í uppsjávarhúsi Vinnslustöðvarinnar snemma að morgni sunnudags 4. júlí og verður óvæntur en afar velkominn dagskrárliður goslokahátíðarinnar hjá þeim sem beðið hafa átekta eftir að fyrsti makríll vertíðarinnar láti sjá sig í Vestmannaeyjum.

Kap VE er á heimleið með um 800 tonn úr Smugunni og Ísleifur leggur væntanlega af stað heim í kvöld með 900-1.000 tonn.

„Kap kom í Smuguna um hádegisbil á miðvikudaginn og náði þessum afla á innan við tveimur sólarhringum. Það veiðist ágætlega þarna og reyndar mun betur en við þorðum að vona. Nú fara hjólin að snúast hér heima og það er gleðiefni,“ segir Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar

Huginn VE lagði af stað í Smuguna í gær, fimmtudag, og frystir um borð til að byrja með.

Samanlagðar aflaheimildir Vinnslustöðvarinnar og Hugins í makríl eru 22.000 til 23.000 tonn.

Spádómsgáfan á kaffistofunni
Eydís Ásgeirsdóttir, flokksstjóri og umsjónarmaður kaffistofu starfsmanna Vinnslustöðvarinnar, gladdist enn meira en margir aðrir við að heyra tíðindin af veiðum í Smugunni. Fyrr í vikunni dreymdi hana nefnilega fyrir farsælli makrílvertíð og er handviss um að nú rætist draumurinn.

„Ég fer alltaf á fætur kl. 4:45 á morgnana og þennan morgun vaknaði ég hreinlega með bros á vör og hugsaði: Við fáum langa og góða makrílvertíð!

Mig dreymdi að komnir væru þrír Japanir í hús til okkar, á misjöfnum aldri en allt reynslumiklir menn. Í framhaldinu fór ég í draumnum að taka á móti ungu fólki ofan af landi sem kom til Eyja í vinnu. Glaðvær og spenntur hópur. Svo mikill hamagangur og kapp var í mannskapnum að ég hafði vart undan að afgreiða fólkið eins og fyrir mig er lagt að þegar það kemur fyrst til starfa. Ungmennin voru svo æst að hefjast handa.

Ég túlkaði drauminn strax þannig að makríll myndi veiðast og vertíðin yrði þrír mánuðir. Mikill fiskur og mikill vinna. Góð vertíð.

Við þetta stend ég!“

Eydís á kaffistofunni

Loðnuspádómur Línu
Nú reynir á spádómsgáfu Eydísar næstu vikur og mánuði. Minnugir reynsluboltar í Vinnslustöðinni rifjuðu strax upp að fyrirrennari hennar í kaffistofunni, Sigurlína Árnadóttir – kölluð Lína í Túni, spáði fyrir um loðnuvertíð árið 2008. Lína reyndist sannspá og hróður hennar barst víða. Lína greindi meira að segja sjávarútvegsráðherranum frá draumnum, Einari K. Guðfinnssyni, en skynjaði að það létti ekki áhyggjubaggann hans vegna loðnubrests sem við blasti.

Yfirgnæfandi líkur eru á því að núverandi ráðherra sjávarútvegsmála, Kristján Þór Júlíusson, taki makrílgleði sína til fulls þegar hann fréttir af vertíðarspá Eydísar. Dalvískir sjóarar taka nefnilega fullt mark á draumum og hafa alltaf gert.